Framboðsfrestur rann út í gær.

Einar Baldursson, formaður uppstillingarnefndar, segir að nefndin muni taka sér um það bil viku í verkið. Einnig að nokkrir hafi gefið kost á sér í fyrsta sætið, án þess að fara nánar út í þann fjölda.

„Ég brenn fyrir því að styrkja iðnaðinn í landinu. Hann á undir högg að sækja,“ segir Guðmundur, sem er véltæknifræðingur að mennt og rak Vélsmiðju Orms & Víglundar í Hafnarfirði um langt skeið. „Mín skoðun er sú að iðnaðurinn sé sú grein sem muni koma fótunum aftur undir okkur eftir faraldurinn.“

Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi oddviti, tilkynnti það í lok maí að hann hygðist ekki gefa kost á sér. Rúmum tveimur vikum fyrr hafði Una María Óskarsdóttir varaþingmaður tilkynnt að hún hygðist gefa kost á sér í 1.-2. sætið á listanum. Una er uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur og á að baki langan starfsferil innan fjögurra ráðuneyta.

Miðflokkurinn fékk rúmlega 5 þúsund atkvæði í kosningunum árið 2017, eða 9,5 prósent. Hafnaði flokkurinn sem fjórði stærsti flokkurinn í kjördæminu. Fylgi flokksins var mjög misjafnt í sveitarstjórnarkosningunum árið eftir. Fékk hann fulltrúa kjörna í Hafnarfirði og Mosfellsbæ en ekki í Kópavogi og Garðabæ.