Una Hildar­dóttir hefur á­kveðið að bjóða sig fram í em­bætti ritara Vinstri grænna á komandi lands­fundi flokksins. Una hefur síðast­liðin fjögur ár gegnt em­bætti gjald­kera og er í dag for­maður Lands­sam­bands ung­menna­fé­laga.

„Mér hefur alltaf fundist það mikil­vægt að við sem störfum í stjórn­málunum festum okkur ekki í ein­stöku hlut­verki í of langan tíma,“ segir Una í til­kynningu á vef Vinstri grænna.

Una er alls ekki reynslu­laus þegar kemur að ritara­starfinu en hún kom fyrst inn í stjórn Ungra vinstri græna sem ritari árið 2011 og gegndi em­bætti ritara Lands­sam­bands ung­menna­fé­laga frá árinu 2017 til 2019.