Búast má við því að um tíu þúsund íslensk jólatré verði seld fyrir jólin. Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, segir að salan hafi verið svipuð síðustu fimm ár.

Brynjólfur bendir á að íslensku trén séu umhverfisvænasti kosturinn en þrátt fyrir aukna áherslu á umhverfismál sjái þess ekki enn mikinn stað í aukinni sölu. Fyrir hvert tré sem er höggvið til sölu eru 40 til 50 sett niður í staðinn.

„Fólk er kannski hægt og bítandi orðið meðvitaðra um að plasttrén eru ekki umhverfisvæn. Þau eru flutt yfir hálfan hnöttinn, oftast frá Kína, þannig að kolefnissporið er margfalt meira en hjá íslensku trjánum,“ segir Brynjólfur.

Þá sé plastið sjálft auðvitað óumhverfisvænt og telur Brynjólfur að það muni koma að því að fólk hætti að nota plasttré. Þó sé sjálfsagt að nýta áfram þau plasttré sem til séu eins lengi og hægt er.

„En það er ekki mjög skynsamleg ráðstöfun til framtíðar að kaupa sér plasttré. Það eru algjörir umhverfissóðar sem gera það.“

Kannanir sem MMR hefur framkvæmt undanfarin ár sýna að rúmlega helmingur landsmanna notar gervitré á jólunum. Tæpur þriðjungur hefur lifandi tré en tæp 14 prósent hafa ekki jólatré. Brynjólfur segir að fyrir utan íslensku trén séu seld á bilinu 20 til 30 þúsund innflutt tré sem komi fyrst og fremst frá Danmörku.

„Við fundum fyrir töluverðri aukningu eftir hrun í sölu íslenskra trjáa. Þá kom fólk í meiri mæli út í skógana til skógræktarfélaganna en það hefur aðeins slaknað á því aftur. Það myndast ákveðnar hefðir í kringum þetta og þeir sem einu sinni hafa farið með fjölskylduna út í skóglendi koma yfirleitt aftur.“

Um tuttugu skógræktarfélög um allt land taka á móti fólki og bjóða upp á íslensk jólatré. Mörg þeirra munu hafa opið um helgina en hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðunni skog.is/jolatrjaavefurinn.

Brynjólfur segir að stafafuran sé vinsælasta íslenska jólatréð. „Hún er þeim eiginleikum gædd að hún bæði ilmar vel og heldur barrinu mjög vel. Hún getur staðið fram að páskum.“

Í gamla daga hafi rauðgrenið verið aðal jólatréð. „Það er frekar lítið af því núorðið en það hefur sinn sjarma. Lyktin er mjög góð og svo er formið þetta klassíska sem maður hefur kannski í huga þegar hugsað er um jólatré. Mér er sagt að þeir sem halda alvöru jól í Danmörku og Noregi hafi rauðgreni.“

Það er mjög gott hljóð í skóg­ræktar­fólki og mikill hugur í því að reyna að taka þátt í þessum verkefnum í loftslagsmálum og gera sig gildandi þar.

„Fyrir mörg skógræktarfélög er jólatréssalan helsta fjáröflunarleiðin. Fólk getur þá stutt sitt heimafélag og nærumhverfi.“

Allir séu velkomnir í útivistarskóga skógræktarfélaganna allt árið um kring en þeir hafi verið að mynda skemmtilega umgjörð í kringum þéttbýlið alls staðar í kringum landið. Brynjólfur segir skógana mikið nýtta og til að mynda komi á ári hverju rúmlega 600 þúsund manns í Heiðmörkina.