Aukin fjárfesting hins opinbera vegna samdráttar í efnahagskerfinu og vegleg framlög til að liðka fyrir kjaraviðræðum er meðal þess sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjallaði um á kynningu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu laust eftir klukkan eitt í dag. Áætlunin spannar tímabilið 2020 til 2024.

Þjóðarsjóður á dagskrá

Í erindi ráðherra kom fram að til standi að stofna svokallaðan Þjóðarsjóð, sem á að mæta hugsanlegum fjárhagsáföllum í framtíðinni. Slíkt hefur lengi verið til umræðu innan stjórnmálanna en mikið hefur verið deilt um með hvaða hætti eigi að fjármagna slíkan sjóð.

Reyna að liðka fyrir kjarasamningum

Þá leggur ríkisstjórnin til að „umtalsverðir“ fjármunir verði lagðir til til að stuðla að samkomulagi um kjarasamninga á vinnumarkaði, en eins og vitað er hefur sívaxandi ólga og harka færst í kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði. Víðtæk verkföll Eflingar og VR settu t.a.m. svip á starfsemi ferðaþjónustunnar í gær.

Segir í tilkynningu ráðuneytis að launahækkanir á síðustu árum hafi skilað heimilum meiri kjarabótum en nokkru sinni fyrr, en jafnframt segir að auknar launahækkanir séu líklegar til þess að leiða til verðbólgu og aukins atvinnuleysis. „Þær hafa á hinn bóginn leitt til hækkunar launakostnaðar langt umfram það sem raunin hefur verið í helstu viðskiptalöndum Íslands og þar með skert verulega samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja,“ segir þar að auki.

Ríkisstjórnin hyggst leggja til ýmissa útgjaldaaukninga til að liðka fyrir kjarasamningum. „Stefnt er að auknum stuðningi við byggingu húsnæðis fyrir lágtekjufólk og við fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði í ljósi þess að húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað talsvert umfram laun síðastliðin ár. Einnig felast lífskjarabætur í hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofs sem ríkisstjórnin stefnir á að taki gildi á kjörtímabilinu,“ segir í tilkynningunni.

Er jafnframt vísað til skattatillagna ríkisstjórnarinnar, sem eru sagðar eiga að lækka skattbyrði á almenning, einkum þá tekjulægsta. Tillögurnar fengu kaldar viðtökur verkalýðsforkólfa og gengu sumir þeirra út af kynningu stjórnvalda á tillögunum. 

Auknar fjárfestingar hins opinbera vegna samdráttar

Þá er lagt til að aukið verði við fjárfestingar hins opinbera þar sem fyrirséð er að atvinnuvegafjárfesting muni fara minnkandi vegna samdráttar í efnahag. Eins segir í tilkynningu ráðuneytis að framlög til samgönguinnviða hafi ekki verið hærri í tuttugu ár.

Tilfærslur milli ára

Að frátöldum breytingum vegna ýmissa tæknilegra leiðréttinga nema breytingar á rammasettum útgjöldum frá gildandi fjármálaáætlun um 2,6 milljörðum króna til lækkunar á árinu 2019. Munar þar mest um hliðrun verkefna tengdum byggingu nýja Landspítalans auk hliðrun ýmissa vegaframkvæmda.

Breyting á árinu 2020 milli áætlana nemur um 13 milljörðum króna, um 20 milljarða fyrir árið 2021, 27,8 milljarðar fyrir árið 2022 og fyrir árið 2023 nema þessar breytingar um 24,3 milljarða. 

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að breytingar megi helst rekja til eftirfarandi þátta:

-Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021 en kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 milljónir króna árið 2020, 2,7 milljarði 2021 og 3,8 milljarði frá og með árinu 2022.

-Hækkun stofnframlaga til almennra íbúða um 2,1 milljarði króna frá og með árinu 2020 til ársins 2022.

-Alls 4 milljarða viðbótaraukning til samgönguframkvæmda frá og með 2020.

-Veruleg aukning framlaga til nýsköpunarverkefna. Þar munar mest um 1,1 milljarðs króna hækkun frá og með 2020 vegna rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, aukin framlög vegna endurgreiðslu kostnaðar til fyrirtækja við rannsóknir og þróun en í fjárlögum 2019 hækkuðu framlögin um 1 milljarð króna og munu þau hækka um 250 milljónir árlega frá og með árinu 2021. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að hækka styrki til nýsköpunar um 500 milljónir árið 2020, 1,5 milljarða árið 2021 og 2 milljarða árin 2022–2024.

-Áframhald á fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu þar sem framkvæmdir við nýjan Landspítala vega þyngst en stefnt er að því að ljúka við byggingu spítalans 2025. Alls nemur fjárfesting í sjúkrahúsþjónustu ríflega 74 milljarða á tímabilinu.

-Aukin framlög til byggingar nýrra hjúkrunarrýma, þ.e. 500 milljónir 2020, 1,5 milljarða 2021 og 2 milljarða árin 2022 og 2023.

-Breytt útfærsla skattaaðgerða frá forsendum gildandi fjármálaáætlunar. Þar er um að ræða 1,6 milljarða króna vegna barnabóta, 400 milljónir vegna stuðnings við bókaútgáfu og 400 milljónir vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

-Aukin framlög til umhverfismála, sérstaklega í tengslum við loftslagsáætlun stjórnvalda 

-Breytingar á námslánakerfinu með námsstyrkjakerfi

-Stofnstyrkir til kaupa eða byggingar almennra íbúða vaxa umtalsvert á árunum 2020–2022 og verða framlög vegna þeirra 3,8 milljarða á ári. 

-Nýtt hafrannsóknarskip verður smíðað á áætlunartímabilinu, en það var samþykkt á hátíðarþingfundi á Þingvöllum síðasta sumar.