Bandaríkin hafa nú tryggt her sínum aðgang að fjórum herstöðvum til viðbótar á Filippseyjum. Með samkomulaginu hefur bandaríski herinn nú fyllt upp í varnarlínu sínu sem nær frá Suður-Kóreu og Japan í norðri til Ástralíu í suðri.
Samningurinn markar mikil tímamót í stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda gagnvart fyrrum nýlendu sinni, en Bandaríkin drógu herlið sitt til baka frá Filippseyjum fyrir 30 árum.
Ekki hefur enn verið greint frá því hvar nýju herstöðvarnar verða en mögulegt er að þrjár þeirra verði staðsettar á Luzon-eyju í norðurhluta landsins. Luzon hýsir bæði höfuðborgina Maníla og er einnig sú eyja sem liggur næst Taívan.
Bandaríski herinn hafði þegar takmarkaðan aðgang að fimm bækistöðvum á Filippseyjum. Ríkisstjórn Bandaríkjanna þvertekur fyrir að með þessu samkomulagi sé hún að leitast eftir varanlegum herstöðvum.
Kínverska ríkisstjórnin gagnrýnir samkomulagið harðlega og segir Bandaríkjamenn auka spennu á svæðinu og grafa undan friði og stöðugleika. Hún segir Bandaríkin styrkja hugmyndina um núllsummuleik í Asíu með því að efla hernaðaraðstöðu sína á svæðinu.