Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra telur að dómur Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) í svo­kölluðu Lands­réttar­máli gefi Al­þingi tæki­færi til að sýna hvað í því býr með því að bregðast rétt við. Hún segir eðli­legt að dómurinn hafi haft rót hér á landi en hvetur til þess að allar hliðar verði reifaðar. 

„Við eigum ekki að hleypa þessari um­ræðu í pólitískar skot­grafir,“ sagði Katrín í ræðu sinni á Alþingi á þingfundi sem hófst klukkan 14. Hún gagn­rýndi þá um­ræðu sem uppi hefur verið, og felst einkum í því að minni­hluta­at­kvæði tveggja dómara af sjö í málinu við MDE hafi ekki vægi. 

Minnihlutaálit skuli ekki hunsuð

Sé litið til réttar­sögunnar hafi álit minni­hlutans í dómum haft „ó­trú­leg á­hrif“. Vísaði hún meðal annars til banda­ríska hæsta­réttar­dómarans Thur­good Mars­hall heitins sem barðist meðal annars gegn að­skilnaði hvítra og svartra í banda­rískum skólum. 

Katrín segir að mikil á­byrgð hvíli á öllum þremur greinum ríkis­valdsins að bregðast við dómnum sem hún segir „for­dæma­lausan“. „Í mínum huga snýst þetta um að gera það sem er rétt.“ Til lengri tíma megi nýta dóminn til að draga lær­dóm, einkum hvað skipan dómara varðar hér á landi.

Mikil­vægt telur hún að það verði skoðað hvort til­efni sé til að á­frýja dómnum. Líkt og fyrr segir telur hún að ekki megi gera lítið úr at­kvæðum minni­hluta dóms MDE og að ljóst sé að ó­líkar skoðanir séu á lofti um hvaða á­lyktanir megi draga af dómnum. 

Búi sig undir fjölgun dómara við Landsrétt

Þannig sé æski­legt að ráðast í út­tekt um hvaða kosti, galla og af­leiðingar það hefur að skjóta niður­stöðunni til yfir­deildar MDE. Í þeim efnum segir hún ekki úti­lokað að fenginn verði er­lendur sér­fræðingur til að leggja mat á hugsanlegt mál­skot íslenska ríkisins.

Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar og for­maður stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar, spurði hvort bókun dóm­stóla­sýslunnar, um fjölgun dómara við Lands­rétt, úr 15 í 19, yrði tekin til greina. Katrín sagði að málið væri til skoðunar hjá dóms­mála­ráðu­neytinu. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttur, sem þessa dagana sinnir dóms­mála­ráðu­neytinu, tekur til máls á eftir. 

Hins vegar þyrftu þing­menn að búa sig undir fjölgun dómara við Lands­rétt. Dóm­störf lágu niðri í Lands­rétti í síðustu viku en hófust að nýju í dag. Fjórir dómarar, sem skipaðir voru að til­lögu Sig­ríðar Ander­sen þvert á mat hæfis­nefndar, munu ekki taka þátt í störfum þar.