„Núna liggur boltinn hjá íslenskum stjórnvöldum og bandalagsríkjum okkar í NATO,“ segir Baldur, spurður að því hvort hann sjái merki þess að áhugi á umræðu um varnarmál minnki eftir því sem fjær dregur upphafi stríðsins í Úkraínu.

„Þar er vinna hafin við að meta varnarþörf Íslands og á Norður-Atlantshafi, þannig að umræðan er komin til að vera meðal þeirra sem móta stefnuna, hvort og hvernig sem hún verður í almennri umræðu,“ segir hann.

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu jókst áhugi almennings á varnarmálum Íslands mjög, en Baldur segir það furðu sæta hve langt á eftir Norðurlandaþjóðunum Íslendingar eru í þeirri umræðu.

„Allt frá því að Rússar réðust inn í Donbas-héruðin og tóku yfir Krímskaga frá 2014, hefur verið vaxandi umræða um varnarmál í Evrópu og nánast öll ríki Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins hafa verið að styrkja varnir sínar,“ segir Baldur.

Hin Norðurlöndin hafi nýverið gert samninga sín á milli og við Bandaríkin, á ýmsum sviðum öryggis- og varnarmála. „Það kom mér alltaf dálítið á óvart hvað mér þótti við vera miklir eftirbátar hvað þetta varðar,“ segir Baldur og vísar til áranna eftir að Rússar tóku Krímskaga af Úkraínu og réðust inn í austurhéruðin.

„Bæði hvað það var í raun takmörkuð umræða í samfélaginu í kjölfar breyttrar stöðu í Evrópu vegna yfirgangs Rússa og líka í ljósi þess hvað helstu nágrannaþjóðir okkar voru að gera, sem ég sá hvorki merki um í umræðunni hér heima né í stefnumótun stjórnvalda.“

„Það er eins og þessi umræða fari ekki af stað heima fyrr en Rússarnir ráðast núna með allsherjarinnrás inn í Úkraínu,“ segir Baldur. Hann segir hingað til hafa verið ákveðna tilhneigingu á Íslandi til þess að útvista stefnumótun í varnarmálum hérlendis til útlanda.

„Það sem ég hef verið að benda á í þessari umræðu, og mér hefur fundist mikilvægt, er að við byrjum að vinna heimavinnuna okkar og við byrjum að móta okkur þá stefnu hvernig við myndum helst vilja sjá vörnum Íslands fyrirkomið,“ segir Baldur.

Það hafi verið ríkt í umræðunni hér að leita álits Bandaríkjamanna. Bandaríkin telji loftrýmisgæslu við Ísland mikilvæga fyrir eigin varnir.

„Það getur verið að það sé mikilvægt fyrir okkur að vera með litla fasta öryggissveit sem kæmi til aðstoðar ef eitthvað kæmi hér upp á. Ég er ekki að segja að það sé nauðsynlega þörf á þessu, en við þurfum að ræða þetta, því það fer ekki endilega saman hvað öðrum bandalagsríkjum finnst og hvað okkur kannski endilega finnst.“