Á morgun hefst landssöfnun Kiwanis hreyfingarinnar, K-dagurinn, sem er fjáröflunarverkefni Kiwanis á Íslandi. K-dagurinn var fyrst haldinn 18. október 1974 og eru einkunnarorðin „Gleymum ekki geðsjúkum“ flestum landsmönnum góðu kunn. Hreyfingin mun selja K-lykilinn til styrktar fólks með geðraskanir.
„K-dagurinn er stærsta fjáröflunarverkefni Kiwanis á Íslandi og við höfum þriðja hvert ár farið í landssöfnun fyrir geðheilbrigðismál,“ segir Hjalti Árnason, formaður K-dags nefndar Kiwanis. „Þetta er landssöfnun og það gætu verið 3-400 sölumenn um allt land.“
Hjalti segir að á síðustu árum hefur verið safnað fyrir samtök sem aðstoða ungt fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. „Við erum að hjálpa þar sem þörfin er mest í að berjast á móti sjálfsvígum, sérstaklega hjá ungu fólki,“ segir hann, en tugir milljóna hafa safnast í hvert skipti sem K-dagurinn er haldinn.
Eina skiptið sem þú átt að líta niður á mann, það er þegar þú ert að draga hann upp
„Við hvetjum fólk til að vera duglegt að kaupa lykla og taka þátt í þessu hjá okkur. Það hefur sýnt sig að við búum í svo góðu samfélagi og fólki er annt um náungann,“ segir Hjalti stoltur, en hann vonast alltaf til að geta gert betur en síðast.
Eins og fyrr segir fer söfnunin formlega á stað á morgun og má fólk búast við að sjá sölumenn um allar trissur. „Við verðum fyrir utan verslanir, vínbúðir og fleiri staði og við hvetjum alla til að taka þátt,“ segir Hjalti.
Hann segir að það verði að opna umræðuna um geðsjúkdóma. „Umræðan um geðsjúkdóma og geðheilbrigðismál má ekki vera tabú. Fólk þarf að tala um þetta og ræða vandann. Það er ekki síður verkefni okkar að losa um þessa fordóma og opna umræðuna um geðsjúkdóma.“
„Við erum öll í sama liðinu. Eina skiptið sem þú átt að líta niður á mann, það er þegar þú ert að draga hann upp.“
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á að Kiwanis hefur sett upp söfnunarreikning í tilefni átaksins. Reikningsnúmerið er 0121 26 004440, Kt. 60173 1079.