Á morgun hefst lands­söfnun Kiwanis hreyfingarinnar, K-dagurinn, sem er fjár­öflunar­verk­efni Kiwanis á Ís­landi. K-dagurinn var fyrst haldinn 18. októ­ber 1974 og eru ein­kunnar­orðin „Gleymum ekki geð­sjúkum“ flestum lands­mönnum góðu kunn. Hreyfingin mun selja K-lykilinn til styrktar fólks með geð­raskanir.

„K-dagurinn er stærsta fjár­öflunar­verk­efni Kiwanis á Ís­landi og við höfum þriðja hvert ár farið í lands­söfnun fyrir geð­heil­brigðis­mál,“ segir Hjalti Árna­son, for­maður K-dags nefndar Kiwanis. „Þetta er lands­söfnun og það gætu verið 3-400 sölu­menn um allt land.“

Hjalti segir að á síðustu árum hefur verið safnað fyrir sam­tök sem að­stoða ungt fólk sem á við geð­ræn vanda­mál að stríða. „Við erum að hjálpa þar sem þörfin er mest í að berjast á móti sjálfs­vígum, sér­stak­lega hjá ungu fólki,“ segir hann, en tugir milljóna hafa safnast í hvert skipti sem K-dagurinn er haldinn.

Eina skiptið sem þú átt að líta niður á mann, það er þegar þú ert að draga hann upp

„Við hvetjum fólk til að vera dug­legt að kaupa lykla og taka þátt í þessu hjá okkur. Það hefur sýnt sig að við búum í svo góðu sam­fé­lagi og fólki er annt um náungann,“ segir Hjalti stoltur, en hann vonast alltaf til að geta gert betur en síðast.

Eins og fyrr segir fer söfnunin form­lega á stað á morgun og má fólk búast við að sjá sölu­menn um allar trissur. „Við verðum fyrir utan verslanir, vín­búðir og fleiri staði og við hvetjum alla til að taka þátt,“ segir Hjalti.

Hann segir að það verði að opna um­ræðuna um geð­sjúk­dóma. „Um­ræðan um geð­sjúk­dóma og geð­heil­brigðis­mál má ekki vera tabú. Fólk þarf að tala um þetta og ræða vandann. Það er ekki síður verk­efni okkar að losa um þessa for­dóma og opna um­ræðuna um geð­sjúk­dóma.“

„Við erum öll í sama liðinu. Eina skiptið sem þú átt að líta niður á mann, það er þegar þú ert að draga hann upp.“

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á að Kiwanis hefur sett upp söfnunarreikning í tilefni átaksins. Reikningsnúmerið er 0121 26 004440, Kt. 60173 1079.