Sérstök umræða fór fram á þingfundi í dag um skipulagða glæpastarfsemi. Málshefjandi var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, sem sagði ástæðu til að óttast að Íslendingar væru að missa tökin á skipulagðri glæpastarfsemi líkt og kemur fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

„Skýrslurnar gera líka ítarlega grein fyrir því hvernig þessir hópar misnota hælisleitendakerfið og velferðarkerfið á Íslandi. Hælisleitendakerfið er bæði notað til að koma inn glæpamönnum og fórnarlömbum þeirra auk þess að selja fólki væntingar en leggja það í hættu og hafa jafnvel aleiguna eða hreppa það í ána “ sagði Sigmundur Davíð.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, mótmælti orðum Sigmundar varðandi lög um útlendinga. Sagði hún enga lausn að hvert og eitt ríki þrengi í sífellu hvernig það taki á móti fólki í neyð. „Það skiptir máli að taka vel á móti fólki á flótta og tryggja félagslega stöðu þess.“

Sigmundur Davíð segir skipulagða glæpahópa misnota hælisleitendakerfið.

Þarf að fjölga lögreglumönnum

Til andsvara var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra en hún tók undir með Sigmundi Davíð og sagði skipulagða brotastarfsemi því miður hafa færst í aukana hér á landi á undanförnum árum, en að minnsta kosti fimmtán hópar eru skilgreindir sem skipulagðir brotahopar hér á landi. Sagði hún samráð og samhæfingu eitt af lykilatriðum til að ná árangri og taldi upp aðgerðir sem þegar hafa verið settar í gang gegn téðri brotastarfsemi, þar á meðal stofnun lögregluráðs, nýsamþykkt reglugerð um embætti ríkislögreglustjóra og samstarf ríkislögreglustjóra og lögreglu við að samnýta mannafla og búnað.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði vandamálið ekki flókið: Það þurfi að fjölga lögreglumönnum. Minntist hún á nýlegan Kompas þátt um skort á fjármagni og mannafla hjá lögreglunni og öðrum eftirlitsstofnunum.

„Nú erum við að fást við verkefnið stytting vinnuvikunnar en bara hún ein og sér kallar á 75 nýja lögreglumenn á Íslandi. Við erum ennþá á þeim stað að það eru jafn margir lögreglumenn á Íslandi í dag og 2007, það eru nú öll ósköpin. Til þess að geta unnið hratt og örugglega rannsakað þessi mál og varið borgara hér á landi þarf að fjölga lögreglumönnum. Þetta er ekkert flókið,“ sagði Helga Vala.

Olga Margrét Cilia segir ótta almennings sterkt vopn fyrir valdhafa.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Feta hættulega braut

Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, lýsti yfir áhyggjum með nýtt frumvarp um lögreglulög um að gefa lögreglunni auknar rannsóknarheimildir. Telur hún að verið sé að feta hættulega braut með þessu og ekkert sem komi í veg fyrir að slíkum heimildum sé biett á aðra borgara en einstaklinga sem taka þátt í skipulagðri glæpastarfsemi.

„Ótti almennings er sterkt vopn fyrir valdhafandi hópa. Með því að kynda undir ótta geta ríkisstjórnir drifið réttindaskerðingar einstaklinga í gegnum þingið,“ sagði Olga. Benti hún á að skipulögð glæpastarfsemi þurfi ekkert endilega að vera erlend glæpasamtök eða hryðjuverkasamtök, það séu brot sem eiga sér oft stað fyrir opnum tjöldum: Skattaundanskot og auðgunarbrot framkvæmd af mönnum í jakkafötum, sem við erum alin upp við að treysta.

„Fleiri vopn í hendur“

Nokkrir þingmenn véku máli sínu að Rauðagerðismálinu svokallaða, þar sem Armando Beqirai var skotinn til bana með skammbyssu með hljóðdeyfi. Morðinu hefur verið lýst sem aftöku í tengslum við uppgjör í undirheimum Reykjavíkur. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi skólastjóri Lögregluskólans, sagði að slík aftaka ætti ekki að koma á óvart þar sem fjölmargar skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefðu bent á hættuna og lagt til leiðir til að spyrna við fótum.

„Skýrslur greiningardeildarinnar liggja fyrir. Ábendingar deildarinnar eru þar að finna. Rauðagerðismálið blasir við. Lögreglunni verður að færa fleiri vopn í hendur. Vopn sem duga til að kveða niður þessa óáran sem skipulagðir glæpahópar eru, niður fyrir fullt og allt,“ sagði Karl Gauti.

Karl Gauti segir skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra skýrar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Úr fjórtán milljörðum í sautján

Áslaug Arna sló botn í umræðuna og ítrekaði að forgangsröðun hjá dómsmálaráðuneytinu og lögreglunni væri mjög skýr.

„Við höfum aukið fjármuni lögreglunnar á nokkrum árum, úr fjórtán í sautján milljarða. Það eru ekki aðeins þeir fjármunir sem fengnir eru úr verkefnum lögreglunnar heldur skýr forgangsröðun í bætta löggæslu á öllum sviðum.“

Benti hún á að ríkislögreglustjóri leiddi þessa vinnu og hafi komið ábendingum og tillögum á framfæri við ráðherra um að breyta reglugerð um rannsókn sakamála með því að víkka gildissvið þeirra og skilyrði. Það sé mikilvægt í rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi.