„Ég vek at­hygli á því að þetta er al­­­gjört of­beldi,“ segir Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­­mála­ráð­herra, í við­tali í Kast­­ljós­þætti kvöldsins. Hún segist ekki hafa getað trúað því að menn töluðu með viðlíka hætti og þrír þingmenn Miðflokksins gerðu um hana.

Þeir Berg­þór Óla­­son, Gunnar Bragi Sveins­­son og Sig­­mundur Davíð Gunn­laugs­­son séu of­beldis­­menn fyrir um­­­mælin ó­­­geð­­felldu sem látin voru falla í sam­ræðum á Klaustri bar kvöldið 20. nóvember. Hinir tveir síðar­­nefndu eru fyrr­verandi flokks­bræður Lilju. Þá segir hún að of­beldis­menn eigi ekki að hafa dag­skrár­vald.

Ummælin eimi af öfundsýki

Lilja sagði ljóst að um­mælin eimi af öfund í garð hennar og Fram­sóknarflokksins sem á sæti í ríkis­stjórn ásamt Vinstri grænum og Sjálf­stæðis­flokki.

„Ég verð bara að segja að ég sit í þessari ríkis­stjórn og það gengur býsna vel hjá okkur [...] ég tel að þarna séu auð­vitað bara menn sem gremst það. Þeim bara gremst að Fram­sóknar­flokkurinn sitji í ríkis­stjórn.“

„Það sem þessir of­beldis­menn eru að bjóða upp er á allt annað en stöðug­leiki, vin­semd og að bera virðingu fyrir sam­borgurum sínum,“ bætti hún við.

Andvökunótt eftir birtingu upptaknanna

„Hjólum í hel­vítis tíkina,“ sagði Gunnar Bragi á Klaustri áður en hann og Berg­þór hófu að tala með klám­­fengnum hætti um Lilju. „Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“ sagði Gunnar Bragi síðan áður en Sig­­mundur tók á sig sökina og sagði að sér væri um að kenna.

Hún segist hafa áttað sig á því hversu málið fékk á hana þegar hún skráði sig inn á Face­book ný­verið og sá þar mynd af Berg­þóri. „Mér brá. Mér fannst bara ó­þægi­legt að sjá and­litið hans,“ sagði Lilja. „Það var þá að áttaði ég mig á að ég hafði orðið fyrir stór­kost­legri árás.“

„Ég svaf ekkert að­fara­nótt þriðju­­dags,“ sagði hún og bætti við að hún hafi bognað eftir að frekari upp­­tökur komu fram á mánu­­dag. Einar Þor­steins­son, frétta­maður RÚV sem tók við­talið, við Lilju spurði hvort það tæki ekki á að heyra hvernig flokks­bræður hennar fyrr­verandi töluðu um hana. Hún og Sig­mundur hafi verið góðir vinir á sínum tíma.

Heldur ótrauð áfram

„Þess vegna er þetta enn erfiðara,“ sagði Lilja og furðar sig á að eftir allt þeirra sam­starf séu þetta þakkirnar. Það stefni allt í að þing­mennirnir þrír muni sæta ein­angrun í þinginu vegna fram­göngu sinnar.

Ljóst sé að þre­menningarnir hafi gengið ó­myndug­lega fram eftir að upp komst um um­mæli þeirra á barnum. Þeir hafi skaðað í­mynd Ís­lands út á við en tals­vert hefur verið fjallað um málið í heims­pressunni.

Hún segir málið erfitt og það verði að sama skapi þrautinni þyngra að vinna úr því og mæta þeim í þinginu. Hún kveðst þó ekki ætla að láta þetta á sig fá og hyggst halda á­fram að sinna sínum störfum og skyldum í ríkis­stjórn og á þingi.

Fréttin hefur verið uppfærð.