Kjartan Arnar Geirdal Einarsson var í gær sýknaður í meiðyrðamáli sem ákæruvaldið höfðaði gegn honum vegna ummæla sem hann lét falla um Semu Erlu Serdar á Facebook haustið 2019.

Kjartan var ákærður fyrir ummæli á Stjórnmálaspjallinu við frétt með fyrirsögninni: „Sema Erla fær sér Ataturk húðflúr“.

Kjartan var ákærður á grundvelli ákvæðis um hatursorðræðu en samkvæmt ákæru eru ummælin: „Nennir einhver annar en ég að taka Birnu á hana,“ sem Kjartan gekkst við að hafa ritað, talin hafa opinberlega ógnað Semu Erlu vegna þjóðernis hennar og til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf sitt og velferð.

Bára Halldórsdóttir tók upp samtal þingmanna Miðflokksins á Klausturbar.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Sagðist hafa ætlað að skrifa Bára

Tekin var skýrsla af Kjartani hjá lögreglunni í byrjun desember 2019 þar sem hann kvaðst hafa misritað ummælin og ætlað að skrifa Báru í stað Birnu og þá átt við Báru sem tók upp samtal þingmanna Miðflokksins á bar hér í borg, en hann myndi ekki nákvæmlega tilefni skrifanna. Hann kvaðst ekki þekkja Semu, sem hefði misskilið ummælin, og hann hefði ekki með þeim verið að hóta Semu.

Í forsendum dómsins sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á hvernig ummælin sem um ræðir tengist þjóðerni Semu Erlu svo ákærði geti talist hafa með þeim opinberlega ógnað Semu Erlu vegna þjóðernis hennar og þar með gerst brotlegur við umrætt ákvæði almennra hegningarlaga. Hann var því sýknaður.