Þuríður Harpa Sigurðar­dóttir, for­maður Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands, segir um­mæli Brynjar Níels­sonar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins, um fjölgun ör­yrkja, ekki standast nánari skoðun í sam­tali við Frétta­blaðið.

Brynjar lét um­mælin falla í hlað­varps­þætti Sölva Tryggva­sonar sem birtist á vefnum í vikunni. Þar sagðist hann finna mikið til með fólki sem eru allar bjargir bannaðar, þeir þurfi hins­vegar sjálfir að bera ein­hverja á­byrgð. Sagði hann fjölda ör­yrkja og fólks á at­vinnu­leyis­bótum allt­of mikinn.

„Í ör­orku er nánast veldis­vöxtur,“ segir Brynjar. Það þurfi að skoða þetta, þó um­ræðan sé við­kvæm. „Það er stundum eins og það megi ekki taka um­ræðu um svik í al­manna­trygginga­kerfinu, af því að þá er verið að ráðast á þá sem standa höllum fæti og menn setja bara alla ör­yrkja á sama stað,“ segir Brynjar.

„Ef þróunin verður þannig að á hverjum skatt­greiðanda hvílir einn ör­yrki og einn aldraður, þá er það orðið ansi mikið og eitt­hvað sem gengur auð­vitað ekki til lengdar. Ef þeim sem nettó greiða skatt heldur stöðugt á­fram að fækka, þá erum við auð­vitað ekki lengur sjálf­bær og þá þarf að grípa til að­gerða.“

Fordómafullur hræðsluáróður

„Mér finnst nú eigin­lega bara blessaður kallinn vera orðinn Trump okkar Ís-lendinga, þar sem honum dettur í hug að halda fram alls­konar rugli,“ er það fyrsta sem Þuríður segir þegar blaða¬maður ber undir hana um­mæli Brynjars úr þætti Sölva.

„Það er nefni­lega ekki þannig að fjölgun ör­yrkja sé svona gríðar­leg eins og hann segir. Þetta er bara eitt­hvað sem er að slegið fram til þess að skapa ótta, og er hræðslu­á­róður í garð fatlaðs fólks, sem er í dag mjög jaðar­settur hópur fá­tæks fólks,“ segir Þuríður.

Hún bendir á skýrslu Kol­beins Stefánssonar, doktors í fé­lags­fræði frá því í fyrra, sem unnin var fyrir ÖBÍ, máli sínu til stuðnings. „Þessi skýrsla sýnir líka það að sá hópur sem kemur stærstur inn á ör­orku á hverju ári eru konur yfir fimm­tugt sem eru slitnar á sál og líkama, hverju sem um það má kenna,“ segir hún.

Þá segir hún að um­mæli Brynjars um að á hverjum skatt­greið­enda hvíli einn ör­yrki og einn aldraður, ekki heldur standast skoðun.

„Í al­vöru talað, hann á að vita það blessaður maðurinn að það er ein­fald­lega þannig að á komandi árum munu líf­eyris­sjóðir standa undir stærri og stærri hluta eftir­launa lands­manna. Þannig að hlutur ríkisins í eftir­launum getur bara ekkert annað en minnkað. Þannig að þetta er for­dóma­fullur hræðslu­á­róður sem er settur fram til höfuðs jaðar­settum hópi fatlaðs fólks,“ segir hún.

Þuríður bendir á að aldraðir og ör­yrkjar hafa verið mikil­vægir þátt­tak­endur á vinnu­markaði í ára­tugi. „Og ef að hann talar um veldis­vöxt, þá þyrfti hann að skoða það að­eins hvað það þýðir, því það þýðir það þá væntan­lega að hann verði sjálfur ör­yrki eftir mjög stuttan tíma. Menn eiga bara ekki að slá svona vit­leysu fram,“ segir hún.

„Svo finnst mér nú sér­kenni­legt að þetta séu kveðjur frá stjórnar­þing­manni, sem að einhverjum hefur dottið í hug að kjósa á þing, á degi sem að al­þjóða­dagur fatlaðs fólks, þar sem við erum í dag að þakka vel­þenkjandi fólki í sam­fé­laginu og verð­launa það fyrir alls­konar fram­lag í þágu mann­réttinda fatlaðs fólks,“ segir Þuríður.

„Og við sjáum það á orðum þessa manns að það er aldrei mikil­vægara heldur en í dag að við höldum á­fram bar­áttu okkar fyrir mann­réttindum til að njóta lífs til jafns við aðra, nú þegar for­dómum og and­úð gegn jaðar­settu fólki er hampað af ein­stak­lingum sem treyst var til góðra verka. “