Um­mæli Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis í Sprengi­sandi á Bylgjunni í morgun virðast hafa komið þó nokkrum á ó­vart en hann sagði þar meðal annars að til þess að ná hjarðó­næmi þurfi að leyfa veirunni að ganga á­fram, en á sama tíma koma í veg fyrir al­var­leg veikindi við­kvæmra hópa.

Að sögn Þór­ólfs er ó­mögu­legt að vita hversu langan tíma það tæki að ná hjarðó­næmi en það gæti allt eins tekið frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár. Hann sagði mark­miðið ekki endi­lega vera að út­rýma veirunni og að ekki væri endi­lega þörf á hörðum að­gerðum núna.

Kamilla á öðru máli

Stað­gengill sótt­varna­læknis, Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, virðist þó ekki vera full­kom­lega sam­mála en í við­tali við RÚV sagði hún að til­raunir til að ná hjarðó­næmi hafi reynst dýr­keyptar, til að mynda í Sví­þjóð, og slíkt væri ekki á dag­skrá hér.

„Það er ekki víst að við náum neinu raun­hæfu hjarðó­næmi af því að við erum komin með hjarðó­næmi gegn veirunni sem gekk í fyrra en nú er önnur veira að ganga,“ sagði Kamilla en að hennar sögn er staðan metin dag­lega. Í viðtali við mbl.is í dag sagðist Kamilla ekki tilbúin til að tjá sig um ummæli Þórólfs.

Ekki í samræmi við orð sérfræðinga

Helga Vala Helga­dóttir, for­maður vel­ferðar­nefndar Al­þingis, sagði enn fremur í við­tali við mbl.is að um­mæli Þór­ólfs væru ekki í sam­ræmi við það sem rætt var á fundi nefndarinnar á vikunni, þar sem stað­gengill sótt­varna­læknis og land­læknir voru meðal við­staddra.

„Þetta eru stórar fréttir. Það sem hann er að segja í dag er ekki alveg sam­bæri­legt við það sem sér­fræðingar sögðu á fundi vel­ferðar­nefndar í vikunni. Samt getur maður ekki annað en treyst því að hann sé að segja þetta eftir sinni bestu sann­færingu,“ sagði Helga Vala.

Gildandi takmarkanir til 13. ágúst

Enn er tölu­verður fjöldi fólks að greinast með veiruna innan­lands en í gær voru 57 innan­lands­smit. Land­spítali er nú á hættu­stigi en þar eru nú 20 sjúk­lingar inni­liggjandi vegna Co­vid. Fjölda inni­liggjandi fækkar um einn á milli daga auk þess sem það fækkar á gjör­gæslu, þar sem tveir eru nú, þar af einn í öndunar­vél.

Gildandi reglur um sam­komu­tak­markanir innan­lands eru í gildi til 13. ágúst en 200 manna sam­komu­bann, eins metra regla, og grímu­skylda er nú í gildi á landinu öllu. Sótt­varna­læknir mun ekki leggja fram sér­stakt minnis­blað um til­lögur að að­gerðum líkt og áður var gert heldur er boltinn nú hjá stjórn­völdum, sem leitast þó eftir á­lita sér­fræðinga um stöðu mála.