Héraðs­dómur Norður­lands eystra hefur hafnað kröfu Þóru Arnórs­dóttur frétta­manns Rúv um að úr­skurðað verði að Páley Borg­þórs­dóttir lög­reglu­stjóri og Ey­þór Þor­bergs­son stað­gengill lög­reglu­stjóra, á­samt öðrum starfs­mönnum em­bættisins skuli víkja sæti við rann­sókn máls nr. 316-2021-3997.

Þóra höfðaði málið á grunni rann­sóknar á broti gegn frið­helgi einka­lífs, sbr. 228. og/eða 229. gr. al­mennra hegningar­laga nr. 19/1940 (hgl.). Þóra hefur á­samt fleiri fjöl­miðla­mönnum réttar­stöðu sak­bornings við rann­sókn málsins en hún taldi að um­mæli Ey­þórs, sem einnig gegnir stöðu að­stoðar­sak­sóknara, í greinar­gerð til héraðs­dóms og fram­göngu hans á opin­berum vett­vangi hafa leitt til þess að efast mætti um hlut­lægni hans við með­ferð og rann­sókn málsins.

Haft var eftir Ey­þóri á visir.is: „Ef þú þolir ekki gagn­rýni um sjálfan sig [sic], og það má segja um blaða­menn líka, eiga menn bara að vera í blóma­skreytingum. [...] já, sumir ættu að vera í blóma­skreytingum.“

Þóra taldi þessi um­mæli sýna að allt em­bættið væri van­hæft til rann­sóknar málsins, meðal annars að virtri for­sögu málsins og stöðu Ey­þórs Þor­bergs­sonar sem að­stoðar­sak­sóknara og stað­gengils lög­reglu­stjóra.

Fleira er um fjallað í úr­skurðinum sem Hlynur Jóns­son héraðs­dómari fellir. Kemur fram að sögn Ey­þórs að hann hafi ekki áttað sig á seinni spurningu blaða­manns um það hvort honum þætti þetta einnig eiga við um blaða­menn. Með svari sínu hafi hann átt við að ef blaða­menn sæktust einnig eftir ró­legra starfi, þá ætti þetta einnig við um þá. „Í orðunum hafi ekki átt að felast nein niðrandi at­huga­semd um blaða­menn.“

Í niður­stöðu segir að um­mæli Ey­þórs hafi verið ó­heppi­leg, „en ekki til þess fallin að draga megi ó­hlut­drægni sak­sóknarans í efa með réttu. Fær dómurinn ekki séð að um­mælin verði skýrð á þann veg að þau feli í sér per­sónu­lega af­stöðu til sóknar­aðila, sem sé þess eðlis að henni sé rétt að draga ó­hlut­drægni em­bættis varnar­aðila í efa við rann­sókn þessa máls,“ segir í úr­skurðinum.

Þóra hafi ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu at­vik eða að­stæður sem séu til þess fallnar að draga ó­hlut­drægni varnar­aðila, eða ein­stakra starfs­manna hans, í efa. „Verður kröfum sóknar­aðila því hafnað.“