Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra segir Facebook-færslu Helga Magnúsar Gunnarssonar vara­rík­is­sak­sókn­ara slá sig illa. Þetta kemur fram í samtali hans við Mbl.is, en Fréttablaðið náði ekki af tali af Jóni vegna málsins í dag.

Helgi Magnús birti færslu sína við frétt úr kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem rætt var við lögmann hælisleitanda. Sagði hún stjórnvöld hafa vænt skjólstæðing sinn um að ljúga til um kynhneigð sína. Í færslu við fréttina segir Helgi Magnús hæl­is­leit­end­ur „auðvitað“ ljúga um kynhneigð sína og spurði hvort „einhver skortur [væri] á hommum á Íslandi.“

Siðareglur verið í gildi síðan 2017

Ákærendur í landinu hafa sínar siðareglur og bendir Jón á það og segir að ákærendur beri að „forðast að hafa nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er hon­um til van­v­irðu eða varpað get­ur rýrð á það starf eða starfs­grein sem fólk vinn­ur við.“

Jón vildi þó ekki gefa fram skýra afstöðu sína til þess hvort Helgi hefði brotið þær siðareglur, en þegar hann var spurður út í það sagði hann: „Ég held að það geti hver dæmt um það sjálf­ur sem les það.“