Um­mæli Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Ís­lands, um að niður­stöður nýrrar skoðana­könnunar Gallups um traust til þjóð­kirkjunnar megi rekja til siðrofs þjóðarinnar hafa fallið í grýttan jarð­veg meðal margra en um­mælin lét Agnes falla í sam­tali við RÚV.

Þar tjáði Agnes sig um nýjustu tölur úr Þjóðar­púlsi Gallup sem Frétta­blaðið greindi frá í gær. Þar kom í ljós að einungis þriðjungur ber mikið traust til þjóð­kirkjunnar og þá eru einungis ní­tján prósent á­nægð með störf biskupsins.

Fram­tíðin verði þannig að börnin vita ekki af biblíu­sögunum

Agnes var spurð að því hvaða á­hrif hún haldi að það hafi haft á um­rædda þróun að kristni­fræði er ekki lengur kennd í grunn­skólum landsins.

„Það hefur orðið sið­rof held ég. Fólk áttar sig ekki á því hvaðan hlutirnir koma sem við viljum gjarnan lifa eftir og starfa eftir.

Það náttúru­lega segir sig sjálft að ef að börnin læra ekki heima hjá sér til dæmis biblíu­sögurnar eða í skólanum á verður fram­tíðin þannig að þau vita ekki að þetta er til. Ef maður veit ekki að eitt­hvað er til þá skiptir það mann engu máli, -fyrr en kannski allt í einu að eitt­hvað kemur uppá.“

Hold­tekja lang­sóttra skýringa

Eins og fyrr segir hafa um­mælin fallið í grýttan jarð­veg og hafa margir tjáð sig um þau í dag á sam­fé­lags­miðlum. „Fyrir­gefðu, frú biskup, en veist þú ekki hvað orðið „sið­rof“ þýðir?“ spyr Illugi Jökuls­son til að mynda. „Þetta er svo súrrealísk yfir­lýsing,“ skrifar Alexandra Briem, vara­borgar­full­trúi Pírata í um­mælum við færsluna.

„Hér sjáum við hold­tekju lang­sóttra skýringa á óvn­sældum,“ skrifar Eva Hauks­dóttir sem segir að hér sé senni­lega um að ræða „það vand­ræða­legasta“ sem biskupinn hafi látið út úr sér opin­ber­lega „og er þó af nógu að taka.“ Þá blandar Stefán Páls­son sér einnig í málið.

„Við skulum ekki slá þessa til­gátu biskups út af borðinu heldur taka hana al­var­lega og þróa lengra. Sam­kvæmt þessu er siðrofið unga fólkinu að kenna, því varla breytir það inn­ræti þeirra sem eldri eru að hætt sé að kenna kristin­fræði í skólanum,“ skrifar Stefán. Hann bendir á að hann og Agnes hafi bæði lært kristin­fræði og heyri því til þess hluta þjóðarinnar sem séu betri mann­eskjur.

„En fólkið undir 35 ára aldrinum eru mann­eskjur af verri sortinni - eða söku­dólgar siðrofsins eins og við skulum kalla þau,“ skrifar Stefán og segir þetta reyndar ekki ríma við sína reynslu af lífinu.

„En hver veit nema að nánari at­hugun leiði í ljós að flest þjóð­fé­lags­mein séu í raun á á­byrgð þessa sinnu­lausa og sjálf­hverfa fólks undir 35 ára?“

Einfalt að hrekja fullyrðingarnar

Þá bendir Hall­dór Auðar Svans­son, fyrr­verandi borgar­full­trúi, á það á Twitter að fólkið sem ekki hafi fengið kennslu treystir biskupnum best. „Er það þá sið­rof að treysta biskupnum?“

„Nú er ég ekki skoðana­kannana­fræðingur, en er ekki lík­legt að það minnki traustið enn frekar að kalla þjóðina sið­lausa fyrir að svara vit­laust í könnuninni?“ spyr Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Vinstri Grænna á sam­fé­lags­miðlinum.

Þá tekur Viktor Orri Val­garðs­son, fyrr­verandi þing­maður Pírata, í svipaðan streng og Hall­dór. Hann bendir á að mesta van­traustið til þjóð­kirkjunnar megi finna meðal 30-39 ára svar­enda en 52 prósent þeirra segjast bera lítið eða alls ekkert traust til hennar.

„Vegna þess að ég er mjög ný­orðinn þrí­tugur og lærði kristin­fræði í grunn­skóla þá veit ég að Ís­lendingar 30 ára og eldri lærðu (al­mennt) kristin­fræði í grunn­skóla.“