Anna Þórey Arnardóttir, félagi í hópnum Aktivistum gegn nauðgunarmenningu, hefur verið dæmd til að greiða Hugin Þór Þorsteinssyni 250 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem hún lét falla um hann í athugasemdakerfi Stundarinnar og á Pírataspjallinu á Facebook árið 2018. Þá er hún einnig dæmd til að greiða honum 800 þúsund í málskostnað.

Dómur þessa efnis var kveðinn upp i Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.


Upphafið rakið til forsjárdeilu

Málið er sprottið af fjölmiðlaumfjöllun um forsjárdeilu Hugins og barnsmóður hans en um deiluna var töluvert fjallað í fjölmiðlum. Tóku bæði þátt í henni, Huginn og barnsmóðirin báru á hvort annað þungar sakir.

Barnsmóðirin var í viðtali við stundina síðla árs 2017 þar sem hún lýsir sambandi þeirra sem stormasömu. Þar kemur fram að hún hafi kært Hugin til lögreglu fyrir að brjóta á sér. Þá birtist eftir hana grein á vef í maí 2018 þar sem hún lýsti aðstæðum sínum í Kvennaatkvarfinu.

Huginn lýsti einnig samskiptaerfiðleikum þeirra opinberlega. Ásakanir hennar um ofbeldi væru uppspuni frá rótum sem sprottið hefðu af forsjárdeilu þeirra. Hann sagði barnsmóður sína hafa tálmað umgengni hans við son sinn. Þá kemur fram í dómi Héraðsdóms að Huginn hafi stigið fram sem meðlimur í Facebookhópnum „DaddyToo“. Hann hafi lýst þeim tilgangi hópsins að berjast gegn tálmunum mæðra og jafnrétti gagnvart feðrum í forsjármálum.

Sakaður um ofbeldi í þremur ummælum

Ummælin sem umrætt dómsmál snýst um eru þrjú. Þau fyrstu voru höfð uppi í í athugasemdakerfi Stundarinnar 17. október 2018 við frétt um kvörtun Hugins til stjórnenda Háskólans í Reykjavík vegna ummæla starfsmanns skólans í hans garð. Við fréttina ritaði Anna Þórey athugasemdina:

„Er það þannig sem þú sérð ekki að þú ert ofbeldismaður Huginn af því að þú sagðir alltaf eitthvað sætt og varst með atlot þess á milli sem þú barðir hana?“

Hin ummælin tvö birtust 20. október 2018 á Pírataspjallinu á Facebook. Umræðuefnið voru tálmanir, kynbundið ofbeldi og forsjárdeila Hugins og barnsmóður hans. Þar lagði Anna Þórey orð í belg með eftirfarandi athugasemdum:

„Hins vegar þekki ég aðeins til fyrrum eiginkonu Hugins og ég veit að hann barði hana“ og

„Ég hef talað við Maariu og ég hef talað við konu sem varð vitni að því þegar þú beittir hana ofbeldi.“

Sakaður um brot sem varði allt að 16 ára fangelsi

Um ummælin þrjú segir í dómi héraðsdóms að þau verði ekki skilin öðru vísi en að með þeim sé Huginn sakaður um refsiverða háttsemi; ofbeldi gegn barnsmóður sinni. Þau hafi falið í sér staðhæfingar um staðreyndir sem hafi verið til þess fallnar að verða virðingu Hugins til hnekkis. Þær hafi enda verið mjög afdráttarlausar. Þá hafi tilvísanir Önnu Þóreyjar til heimilda verið til þess fallnar að auka á alvarleika ummælanna.

Í málsvörn sinni vísaði Anna Þórey til þess að hún hefði talið sig vera að draga ályktanir af fjölmiðlaumfjöllun. Á það féllst dómurinn ekki, enda hafi því ekki verið haldið fram í fjölmiðlum að Huginn hefði beitt barnsmóður sína líkamlegu ofbeldi á borð við það sem hún lýsti.

Meðlimur í Aktivistum gegn nauðgunarmenningu

Í forsendum héraðsdóms er vísað til vitnisburðar Önnu Þóreyjar fyrir dómi. Hún hafi sagt aðdraganda ummæla sinna þann að hún væri meðlimur hópsins „Aktívistar gegn nauðgunarmenningu“ sem hefði þau markmið „að halda uppi vörnum fyrir konur semekki hefðu tök á að svara  fyrir sig í fjölmiðlum.“

Þá hafi hún borið um áberandi umfjallanir um feður sem kvörtuðu undan tálmunum þrátt fyrir að hafa sjálfir beitt barnsmæður sínar ofbeldi.

Vissi ekki um ofbeldi en framkoma benti til þess

Aðspurð kvaðst stefnda ekki vita hvort Huginn hefði beitt barnsmóður sína ofbeldi. Framkoma hans í fjölmiðlum bæri þess engu að síður merki að hann væri ofbeldismaður og hún vissi til þess að einstaklingar í hópnum „DaddyToo“ væru ofbeldismenn.

Fyrir dómi svaraði Anna Þórey þannig fyrir ummælin að þau fyrstu hefðu verið mistök en hún hefði ekki fundið þau þegar hún ætlaði að leiðrétta þau. Um þau næstu sagðist hún hafa setið fund með hópi kvenna, þeirra á meðal barnsmóður Hugins. Um væri að ræða eina skiptið sem þær hafi hist en Anna Þórey kvaðst hvorki þekkja konuna né hafa talað einslega við hana umrætt sinn. Barnsmóðirin á umræddum fundi lýst andlegu ofbeldi og þvinguðu andrúmslofti í sambúð við Hugin.

Þriðju ummælin á misskilningi byggð

Aðspurð um þriðju ummælin sagðist hún hafa beðið Hugin afsökunar og að um misskilning hefði verið að ræða.

Við úrlausn dómsins á því hvort ummæli Önnu Þóreyjar teldust varin af tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu, segir að taka þurfi tillit til þess hvort a) ummælin hafi verið liður í þjóðfélagsumræðunni á þessum tíma, og b) hvort þau áttu stoð í fyrirliggjandi staðreyndum og hvort Anna Þórey geti talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra.

Um þessi atriði segir í dóminum að umræða um forsjármál, tálmanir og kynbundið ofbeldi hafi vissulega verið í þjóðfélagsumræðunni á þeim tíma sem ummælin féllu. Þá verði heldur ekki fram hjá því litið að Huginn hafi sjálfur tjáð sig opinberlega um forsjárdeilu sína og ítrekað gert að umtalsefni skoðanir sínar á tálmunum mæðra í slíkum málum. Anna Þórey hafi viljað blanda sér þá umræðu.

Að mati héraðsdóms hafi hún hins vegar með ummælum sínum gengið lengra en að taka þátt í umræðu um kynbundið ofbeldi heldur hafi hún nafngreint Hugin og fullyrt að hann hefði beitt barnsmóður sína ofbeldi. „Sakaði hún stefnanda þannig um refsiverðan glæp gegn fyrrverandi sambúðarkonu sinni sem samkvæmt 218. gr. b almennra hegningarlaga kann að varða fangelsi allt að 6 til 16 árum,“ segir í dóminum. Þá er vísað til bæði 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Huginn hafi hvorki hlotið dóm né verið ákærður fyrir að beita barnsmóður sína ofbeldi. Ekki verði heldur séð að barnsmóðir hans hafi lýst slíku ofbeldi af hans hálfu opinberlega.

Lögreglurannsókn á kæru barnsmóður hætt

Þótt hún hafi sagt í viðtali við Stundina að hún hafi kært Huginn fyrir brot gegn sér, en ekkert hafi frekar verið upplýst um það mál. Þá liggi fyrir í gögnum málsins bréf frá lögreglustjoranum þess efnis að rannsókn vegna kæru barnsmóður stefnanda hafi verið hætt.

Framangreindar skýringar Önnu Þóreyjar telur dómurinn ekki bera með sér að hún hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummælanna.

Ummælin njóta ekki verndar tjáningarfrelsis

„Þrátt fyrir að stefnandi hafi tekið þátt í opinberri umræðu um fyrrgreind málefni og tjáð sig frjálslega um eigin forsjárdeilu gat það ekki rúmast innan tjáningarfrelsis stefndu að saka hann opinberlega um ofbeldisfulla og refsiverða háttsemi án þess að slíkar ásakanir væru studdar staðreyndum,“ segir í dómi héraðsdóms um málið. Hún hafi vegið að persónu og æru Hugins gegn betri vitund.

Ummælin voru því dæmd dauð og ómerk og Önnu Þóreyju gert að greiða bæði miskabætur til Hugins og allan málskostnað.