Skotveiðiverslunin Hlað mun brátt selja umhverfisvæn haglaskot sem finnast víða erlendis. Forhlaðið er úr feltefni en ekki plasti sem oftast er notað, og mun það þá brotna hraðar niður í umhverfinu.

Skotin eru framleidd í bænum Gamebore, nálægt Hull á austurströnd Bretlands.

Hjálmar Ævarsson hjá Hlaði segir að höglin sjálf séu úr stáli en forhlaðið úr felti. Skotin hafa verið notuð erlendis en það á eftir að koma reynsla á þau hérlendis. „Þetta ætti að duga svo fólk geti náð sér í jólamatinn,“ segir Hjálmar.

Með því að setja skotin á markað er Hlað að leggja sitt á vogarskálarnar hvað varðar vistvænar veiðar. „Þessi umræða hefur verið í gangi og ég held að allir séu meðvitaðir um að vilja skilja sem minnst eftir sig á þeim stað sem veitt er. Ég held líka að allir reyni að tína hylkin upp eftir sig eins vel og þeir geta,“ segir hann.

Plasthylkin í hefðbundnum skotum brotna vissulega niður en á mun lengri tíma og plastagnir verða eftir. Þá hafa skothylki úr plasti endað í ám og vötnum og mengað vatnið. Einnig hafa þau fundist í mögum stórra fugla.