Umhverfisstofnun tók á dögunum ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi líftæknifyrirtækisins Ísteka ehf. og gildir leyfið til ársins 2038.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunnar.

Ísteka hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga vegna umfjöllunar um blóðtöku úr fylfullum merum sem komst í hámæli í lok nóvember síðastliðinn þegar svissnesk dýrasamtök ljóstruðu upp um dýraníð á blóðtökubæjum hér á landi.

Nái ekki til öflunar blóðs

Í tilkynningunni á vef Umhverfisstofnunnar er sérstaklega tekið fram að starfsleyfið sem um ræðir varði eingöngu lyfjaframleiðslu á starfsstöð Ísteka að Grensásvegi 8 í Reykjavík.

Starfsleyfið nái ekki til birgja eða öflunar blóðs sem Ísteka vinnur með, það sé á hendi Matvælastofnunar að hafa eftirlit með lögum um dýravelferð.

Þá feli starfsleyfið í sér skilyrði um stjórnun á losun mengunarefna og vöktun.

Alls bárust Umhverfisstofnun umsagnir frá 237 aðilum, flestar er varða öflun blóðs úr fylfullum merum, sem hefur verið harðlega gagnrýnt hér á landi eftir að upp komst um málið.

Samræmist ekki ímynd Íslands

Meðal þeirra sem gera athugasemd við starfsleyfistillögu Ísteka um að stækka starfsemi sína er Félag Tamningamanna.

Meðal þess sem kemur fram í umsögn þeirra er eftirfarandi: „Að meirihluti hrossastofnsins í landinu sé notaður til að framleiða lyf sem bætir frjósemi gyltna á stórum verksmiðjubúum svo þær geti eignast meira magn af grísum samræmist ekki ímynd íslenska hestsins né Íslands.“

Félag Tamningamanna fór fram á að Umhverfisstofnun myndi ekki veita Ísteka starfsleyfið.

Hægt er að skoða allar umsagnir sem bárust vegna málsins hér.

Tekið var blóð úr rúmlega fimm þúsund fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu af meraeigendum og líftæknifyrirtækjum á síðasta ári.

Öllum folöldum blóðmera er slátrað til kjötframleiðslu, sett á til endurnýjunar eða nýtt til reiðhestaræktunar í einhverjum tilfellum.