Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis segir umhverfisskýrslu VSÓ ráðgjafar vegna knatthúss við mörk friðlýsts lands við Ástjörn valda „ákveðnum vonbrigðum“ og matsfyrirspurn vegna framkvæmdarinnar vera vanreifaða.

Heilbrigðisnefndin vísar í bókun til umsagnar heilbrigðiseftirlitsins. Þar komi fram að það séu einkum þrír þættir sem eingöngu varða hið friðlýsta svæði Ástjarnar sem framkvæmdaaðili þyrfti að hafa í huga og eiga svör við þegar matsskyldufyrirspurn er lögð fram.

„Það eru hugsanleg áhrif framkvæmdar á lekt hraunstíflunnar sem heldur uppi grunnvatnsborði Ástjarnar, um skuggaáhrif mannvirkisins á Ástjörn og friðlýsta svæðið og loks um áhrif framkvæmdar og væntanlegur rekstur mannvirkja til framtíðar á friðlýsta svæðið og þá um leið ekki síst hugsanlegar mótvægisaðgerðir,“ segir heilbrigðisnefndin.

„Veldur það ákveðnum vonbrigðum hvað lítið er fjallað um þungamiðju framkvæmdanna, það er að flytja fjölnota knatthús að mörkum friðlýsta svæðisins og hvaða áhrif það hefur á friðlýsta svæðið og hvaða mótvægisaðgerðir eru mögulegar,“ segir heilbrigðisnefndin. Ýmsir hnökrar hafi verið á framkvæmd friðlýsingar Ástjarnar.

„Að mati heilbrigðiseftirlitsins svarar greinargerð VSÓ ekki öllum þeim áleitnu spurningum sem nauðsynlegt er að skoða og því sé matsfyrirspurnin vanreifuð,“ er niðurstaða nefndarinnar sem sýnist í meginatriðum sú sama og sett var fram í bókun um málið í fyrrahaust.

„Heilbrigðisnefnd telur að umhverfisskýrsla vegna breytinga á deiliskipulagi Ásvalla svari ekki þeim áleitnu spurningum sem vakna um áhrif háreists knattspyrnuhúss á vatnabúskap Ástjarnar eða lífríki hennar,“ sagði nefndin þá.

Helstu áhrif felast í raski á eldhrauni og einnig vegna ásýndarbreytinga og raski á gróðri.

Umhverfisstofnun segir framkvæmdina þurfa að fara í umhverfismat. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði við mbl.is fyrir um tveimur vikum að það hefði ekki áhrif á framgang málsins.

Í fyrrnefndri skýrslu VSÓ ráðgjafar segir að valkostir í málinu séu taldir hafa óveruleg til neikvæð áhrif á umhverfisþætti.

„Helstu áhrif felast í raski á eldhrauni og einnig vegna ásýndarbreytinga og raski á gróðri. Að mati Hafnarfjarðarbæjar er óhjákvæmilegt að raska hrauni, en að með þeirri útfærslu sem lögð er til hafi sem kostur er verið dregið úr raskinu,“ segir í skýrslunni. Uppbygging íþróttasvæðis á öðrum stöðum á Völlunum geti ekki mætt þeim markmiðum sem sett séu í skipulagi eða sé til þess að valda minni umhverfisáhrifum.

Flæði grunnvatns ekki í hættu

Fram kemur í skýrslu VSÓ að við Ástjörn sé eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi. Bannað sé að breyta náttúrulegu vatnsborði tjarnarinnar og að losa á vatnasviði hennar efni sem skaðað geta gróður eða dýralíf á svæðinu.

„Framkvæmdin er ekki talin ganga gegn skilmálum friðlýsingarinnar. Ástjörn er hraunstífluð tjörn þar sem tvö hraun virka sem „stemmir“ á tjörnina og halda uppi vatnshæð. Þar sem gröftur framkvæmdarinnar nær ekki niður að hæsta grunnvatnsyfirborði er ekki talin hætta á að fyrirhuguð framkvæmd hafi áhrif á lekt stemmisins, og þar af leiðandi ætti flæði grunnvatns úr Ástjörn að haldast óbreytt,“ segir meðal annars í skýrslu VSÓ.