Vilhjálmur Árnasonar, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýnir Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra harðlega í færslu á Facebook í kvöld. Ráðherra segir í samtali við Fréttablaðið málflutning þingmannsins undarlegan.
Þingmaðurinn sagði Guðmund Inga hafa farið um landið „með friðlýsingasprotann í skjóli nætur og friðlýsir út og suður, án alls samráðs og faglegs undirbúnings.“ Hann sagði enn fremur það ekki standast lög að á vatnasvið séu friðlýst á grundvelli rammaáætlunar og það sé hlutverk Alþingis að skilgreina hvaða svæði eigi að friðlýsa í samræmi við rammaáætlun. Það hafi ekki verið gert.
Umhverfisráðherra hafnar málflutningi Vilhjálms eindregið. Guðmundur Ingi segir Vatnajökulsþjóðgarð og önnur friðlýst svæði hafa verið efld til muna í ráðherratíð sinni, bæði með friðlýsingum og fjármagni og allt hafa verið unnið í samræmi við lög.
Þessi málflutningur þingmannsins er vægast sagt undarlegur og stenst enga skoðun
„Þingmaðurinn virðist einfaldlega á móti friðlýsingum í þágu víðerna, náttúruverndar og eflingu náttúruverndarsvæða sem er mikilvægt byggðamál. Hvoru tveggja hefur verið áherslumál mitt. Þessi málflutningur þingmannsins er vægast sagt undarlegur og stenst enga skoðun. Þingmaðurinn er varamaður í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og situr flesta fundi stjórnar. Ég veit ekki til þess að hann hafi lagt fram bókanir gegn nokkurri stækkun þjóðgarðsins á kjörtímabilinu,“ segir Guðmundur Ingi.