Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sækist eftir fyrsta sæti á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi. Búist var við því að ráðherrann myndi taka þátt í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi frekar en í Reykjavík eða á heimavelli hans í Norðvesturkjördæmi og staðfesti hann það í tilkynningu í dag.

Oddviti VG í Suðvesturkjördæmi 2017, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, er farin til Samfylkingar en Guðmundur fær samkeppni frá þingmanninum Ólafi Þór Gunnarssyni. Talið er að varaþingmaðurinn Una Hildardóttir taki þátt í prófkjörinu en ekki Bjarki Bjarkason, forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ.

Áður en Guðmundur Ingi var gerður að umhverfisráðherra hafði hann gegnt starfi framkvæmdastjóra Landverndar. Hann skráði sig í flokkinn eftir að hann var gerður að ráðherra og var svo á landsfundi VG í október 2019 kjörinn varaformaður.

Ólafur Þór Gunnarsson.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag segist hann hafa fylgt VG að málum frá stofnun hreyfingarinnar, ekki síst vegna áherslu á umhverfis- og náttúruvernd, mannréttindi og réttlátara samfélag.

„Ég býð fram krafta mína til að vinna að áframhaldandi umbyltingu í loftslagsmálum, að byggja upp eftir kórónuveirufaraldurinn og vinna bug á atvinnuleysi og styrkja stoðir hagskerfisins til framtíðar með aukinni nýsköpun og nýjum tækifærum í atvinnulífinu. Við þurfum að móta samfélag þar sem kjör og tækifæri fólks eru jafnari og nýting auðlinda er með sjálfbærum hætti,“ segir hann.