Frið­lýsing á Gerpis­svæðinu, þar sem finna má elstu jarð­lög á Austur­landi, var undir­rituð í dag af Guð­mundi Inga Guð­brands­syni um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra.

„Þetta er stór stund í sögu náttúru­verndar á Ís­landi“ sagði Guð­mundur Ingi af til­efni frið­lýsingarinnar. „Gerpis­svæðið er stór­brotið svæði, með fugla- og plöntu­lífi, minjum og merku lands­lagi sem mikil­vægt er að varð­veita. Ég óska Aust­firðingum og Ís­lendingum öllum til hamingju með þessa frið­lýsingu, en með henni höfum við tekið á­kvörðun um að vernda þetta svæði um ó­komna tíð.“

Frá Gerpis­skarði.
Mynd/Anna Berg Samúelsdóttir

Elstu jarð­lögin á svæðinu eru um 14 milljón ára gömul og þar má finna lit­rík lípa­rít­hraun sem eru fyrir á náttúru­minja­skrá, auk þykks gjósku­lags með plöntu­stein­gervingum. Gerpis­svæðið var fyrir allt á náttúru­minja­skrá en það er á milli Norð­fjarðar og Reyðar­fjarðar. Það hefur sam­kvæmt frétta­til­kynningu frá um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytinu mikið verndar­gildi vegna mikil­vægis jarð­minja, lands­lags, menningar­sögu og úti­vistar­gildis. Þar má auk þess finna bú­svæði sjald­gæfra plöntu­tegunda og fugla.