Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, bar grímu með regnbogalitum hinsegin fólks á ráðherrafundi Norðurskautaráðs í Hörpu í dag. Grímuvalið er líklega enginn tilviljun þar sem hinsegin samfélagið hefur hvatt til þess að almenningur haldi uppi regnbogalitunum í tilefni af heimsókn Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Lavrov, sem bar af einhverjum ástæðum enga grímu á fundinum, hefur verið gagnrýndur fyrir að verja aðför rússneskra stjórnvalda gegn hinsegin fólki í landinu.
Aðför gegn hinsegin fólki
Árið 2013 bönnuðu rússnesk stjórnvöld allan svokallaðan „hinsegin áróður“ í landinu. Það hefur haft það í för með sér að gleðigöngur og aðrar samkomur hafa verið bannaðar auk þess sem hinsegin fólk hefur verið ofsótt, pyntað og myrt í auknum mæli síðasta áratug.
Lavrov sagði lögin ekki stríða gegn alþjóðlegum sáttmálum Rússlands og sagði lögin vera til þess gerð að vernda börn í landinu. Baráttufólk hefur þó iðulega bent á að það eigi ekki við um hinsegin börn.
Kæfa ekki ástina með hatri
Samtökin ‘78 efndu til mótmæla fyrir utan Hörpuna í morgun þar sem baráttufólk hélt uppi regnbogafánum og skiltum. „Sýnum Sergei Lavrov og rússneskum stjórnvöldum að þeim mun aldrei takast að kæfa ástina með hatri,“ skrifaði stjórn samtakanna 78 í yfirlýsingu.
„Sýnum hinsegin fólki í Rússlandi að okkur er ekki sama, styðjum við staðfestu þeirra í flóðbylgju mótlætis og haturs. Flöggum regnbogafánanum á fánastöngum, úti í glugga, á vinnustöðum, í skólum.“
