Steinunn Ólína gagnrýnir Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, harðlega í nýjum pistli. Hún hvetur ráðherrann til að viðurkenna valdaleysi sitt og upplýsa almenning um hver bindi hendur hans í ákvörðunum vegna Hvalárvirkjunar.

Vottar fjölskyldu Guðmundar samúð

Steinunn furðar sig á því að ekkert hafi spurst til Guðmundar eftir að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála féll þann 19. júlí vegna Hvalárvirkjunar. Hún segir ljóst að Guðmundur hafi látið undan og lúti stjórn utanaðkomandi afla gegn betri vitund. „Ég votta honum og fjölskyldu hans samúð mína,“ bætir Steinunn við.

Steinunn segir ljóst að ef eyðileggja eigi góðan mann þá sé kjörið að setja hann í valdastöðu og gera honum ókleift að vinna eftir sannfæringu sinni. Hún segir ósk Guðmundar um að engin myndi taka eftir því að hann hafi skorist undan ábyrgð ekki verða að raunveruleika, „Sárin og eyðileggingin í Árneshreppi munu um eilífð bera skömm hans vitni.“

Steinunn vitnar síðan orð Guðmundar frá því hann gegndi stöðu framkvæmdarstjóra Landverndar og barðist gegn fyrirhuguðum virkjunaráformum Hvalárvirkjunar. Í tilvitnuninni varar Guðmundur við að gera sömu mistök og gerð voru vegna Kárahnjúkavirkjunar þar sem stór víðerni voru eyðilögð vegna græðgi.

Áður en Guðmundur Ingi varð umhverfis- og auðlindarráðherra gagnrýndi hann áform um Hvalárvirkjun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ókunn öfl að baki ákvarðana

Steinunn segir skiljanlegt að Guðmundur, sem sagðist engan tilgang sjá með byggingu Hvalárvirkjunar, láti sig nú hverfa þegar ráðuneyti hans ber ábyrgð á því að ráðist verði í framkvæmdir virkjunarinnar.

„Það þarf hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni þegar á móti blæs, ávöxtur þess er meðal annars að geta horfst í augu við spegilmyndina að morgni dags“ segir Steinunn og spyr sig hvaða öfl það séu sem stjórni ráðherranum, „Katrín Jakobsdóttir? Bjarni Benediktsson? HS Orka eða eigendur HS Orku? Hver?“

Tannlaus og mállaus í valdastól

Steinunn vottar einnig kjósendum Vinstri Grænna samúð sína þar sem kosnir fulltrúar þeirra virðast hafa snúið baki við þeim. „Það hefur án efa verið erfitt fyrir tiltrúendur [Guðmundar] að horfa upp á „@UmhverfisMumma” plataðan í sessulausan valdastól þar sem hann má dúsa tannlaus og mállaus með vistvænan plastpoka í annarri hendi og rafmagnsbílainnstungu í hinni.“

Að sögn Steinunnar standa gráðugir peningamenn sem vilja ná sínu fram sama hvað það kostar við valdastól, hugsjónafólkið ráði þar engu. „Ég hvet umhverfisráðherra til þess að viðurkenna valdaleysi sitt og segja frá því hver það er sem bindur hendur hans ef sú er raunin. Almenningur á rétt á þeim upplýsingum þó hin sanna valdaelíta geri allt til að fela spor sín.“