Ísland hefur eignast sína fyrstu ofurhetju, og tilheyrir hún hvorki Marvel-heiminum né DC Comics. Umhverfishetjan varð til í sumar og í plastlausum september hóf hún af fullri alvöru að tína rusl og dytta að mannvirkjum í hverfum borgarinnar.

Eins og aðrar ofurhetjur vill Umhverfishetjan ekki gefa upp nafn sitt eða persónuupplýsingar. Enda segir viðkomandi að persóna sín skipti ekki máli.

„Allir geta verið umhverfishetjur!“ segir Umhverfishetjan. „Þó að ég sé í búningi og með skikkju þá hvet ég aðra til að huga að umhverfinu. Það tekur ekki nema nokkrar sekúndur að beygja sig eftir rusli og setja það í næstu tunnu.“

Umhverfishetjan býr ekki yfir neinum yfirnáttúrulegum kröftum, eins og Súperman eða Wonder Woman.

„Kraftur minn er kannski ofurást á náttúrunni og ég er ágætlega handlaginn. Ég er hetja sem minnir frekar á Batman en er samt ekkert góður að slást,“ segir Umhverfishetjan. Hluti af búningi Umhverfishetjunnar er skærrautt verkfærabelti sem gefur til kynna að hetjan sé smiður eða listamaður.

En hver er erkióvinurinn? Um­hverf­ishetjan segist hafa hugsað um að ráðast gegn Ruslaskrímslinu, sem nærist á slæmri umgengni fólks og hefur birst Íslendingum í bókum. Að lokum ákvað hetjan að gera alla umhverfissóða að erkifjendum sínum.

Umhverfissóðar eru erkifjendur Umhverfishetjunnar.

Lætur veðrið ekki á sig fá

Undanfarna daga hefur verið mikið vatnsveður og samkvæmt spám á því ekki að linna fyrr en í næstu viku. Umhverfishetjan lætur veðrið ekki á sig fá. „Þetta er frekar glatað veður en ég er í stígvélum og með góða vinnuhanska. Í dag hjálpaði ég til við að losa nokkur stífluð ræsi á bílastæðum. Ég tek náttúrunni eins og hún er því það þarf að berjast fyrir umhverfinu alla daga ársins.“

Umhverfishetjan mun einbeita sér að höfuðborgarsvæðinu að svo stöddu og ferðast á milli hverfa til að láta gott af sér leiða. Þegar borgara Gotham vantar aðstoð Batman sendir lögreglan ljósmerki upp í himininn en hvað geta Reykvíkingar gert?

„Ég hef hugsað um að Friðarsúla Yoko Ono í Viðey yrði notuð til að ná í mig . Ég myndi þá útbúa merkið mitt, U, sem hægt væri að skella ofan á hana. Þangað til geta borgararnir notað Facebook til að senda upplýsingar á mig um bilaðar rólur, laus skilti eða eitthvað slíkt,“ segir Umhverfishetjan og heldur af stað í næsta ævintýri.