Víða er kalt á landinu núna í morgunsárið líkt og oft vill verða eftir bjartar og hægar nætur.

Hægviðrið heldur áfram fram eftir degi og léttskýjað, en skýjað með köflum norðaustantil og stöku skúrir eru líklegar til þess að falla suðaustanlands. Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands þennan morguninn.

Má búast við breytilegri átt 5 til 10 m/s og 10 til 18 m/s eftir hádegi. Hlýnandi veður, hiti 2 til 8 stig í kvöld.

Seinnipartinn verður svo vaxandi suðaustanátt og þykknar upp sunnan- og vestanlands er skil nálgast landið.

Í nótt og á morgun verður síðan allhvöss suðaustanátt og rigning með köflum sunna- og vestantil, en þurrt að kalla á Norðausturlandi.

Umhleypingasamt verður næstu vikuna, hægir vindar og bjartviðri á milli lægða með stífum vindi og úrkomu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Sunnan 10-18 m/s suðaustantil á landinu, annars hægari norðvestlæg átt. Rigning, en þurrt að mestu um vestanvert landið. Hiti 4 til 11 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á mánudag:
Breytileg átt 3-8 m/s, en NA 5-10 NV-til um kvöldið. Skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 2 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Suðlæg átt 3-8, en norðaustan 8-13 á annesjum norðanlands. Lítilsháttar væta með köflum og lítil breyting í hita.

Á miðvikudag:
Líkur á hvassri norðaustlægri átt með rigningu í öllum landshlutum og heldur hlýnandi veðri.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðaustlæga átt með dálítilli vætu og hita á bilinu 4 til 10 stig.

Á föstudag:
Stefnir í ákveðna austanátt með rigningu. Hiti breytist lítið.