Úr­skurðar­nefnd vel­ferðar­mála hefur ó­gilt á­kvörðun Trygginga­stofnunar ríkisins um að synja manni um ör­orku­líf­eyri vegna þung­lyndis og kvíða.

Kærandinn í málinu hafði sótt um ör­orku­líf­eyri í nóvember árið 2020 en var synjað og hann að­eins talinn upp­fylla skil­yrði fyrir veitingu ör­orku­styrks.

Sam­kvæmt læknis­vott­orði hafði maðurinn þjáðst af kvíða og þung­lyndi frá barn­æsku sem hafði á­gerst á síðari árum. Kvíði og fé­lags­fælni mannsins hafði skert vinnu­færni hans og læknir hafði úr­skurðað hann ó­vinnu­færan í ágúst 2020.

Maðurinn hafði farið í sál­fræði­tíma og sótt endur­hæfingar­nám­skeið hjá Virk en undir lok nám­skeiðsins var talið að starf­sendur­hæfing væri full­reynd og enn ekki raun­hæft fyrir hann að fara aftur á al­mennan vinnu­markað.

Eftir við­tal og skoðun hjá skoðunar­lækni hafnaði Trygginga­stofnun um­sókn mannsins um ör­orku­líf­eyri á þeim grund­velli að hann upp­fyllti ekki skil­yrði staðals um líf­eyrinn, sem er að jafnaði að­eins veittur fólki með 75 prósent ör­orku.

Til þess að teljast 75 prósent ör­yrki hefði maðurinn þurft að fá minnst tíu stig í ör­orku­staðli sem lýtur að and­legri færni en alls var and­leg færnis­skerðing hans metin til níu stiga.

Úr­skurðar­nefndin ó­gilti á­kvörðun Trygginga­stofnunar því hún taldi ó­sam­ræmi í mati skoðunar­læknis.

Skoðunar­læknir hafði tekið fram að maðurinn væri snyrti­legur til fara í við­tals­tíma og væri annt um út­lit sitt. Hins vegar hafði komið fram í greinar­gerð að versnandi líðan mannsins hefði haft á­hrif á um­hirðu hans, meðal annars þannig að hann hætti að sinna hreyfingu og heimilis­verkum.

Þetta taldi úr­skurðar­nefnd benda til þess að manninum væri ekki annt um út­lit sitt eða að­búnað, sem gat skilað honum einu stigi í ör­orku­staðlinum um and­lega færni.

Úr­skurðar­nefnd vísaði málinu því aftur til nýrrar með­ferðar hjá Trygginga­stofnun.