Tíðni umframdauðsfalla á Íslandi mældist neikvæð um 7,4 prósent í júní. Er þetta í fyrsta skipti síðan í október árið 2021 sem hlutfallið er neikvætt og um tíma var tíðni umframdauðsfalla hér á landi sú hæsta í Evrópu.

Mælingar á umframdauðsföllum undanfarin ár hafa verið gerðar til þess að reyna að komast nærri raunverulegum kostnaði Covid-19 faraldursins í mannslífum. En tíðnin segir til um hversu margir einstaklingar hafa látist í hverjum mánuði umfram meðaltal fyrri ára.

Lengst af í faraldrinum var tíðnin á Íslandi neikvæð, það er að segja að þótt heimsaldurinn geisaði voru færri Íslendingar að deyja en í venjulegu árferði. Hafa ber þó í huga að tíðnin sveiflast mun meira hér á landi en í flestum öðrum Evrópuríkjum, vegna smæðar þjóðarinnar.

Síðastliðið haust, þegar Omíkron-afbrigðið var að koma fram, byrjaði tíðnin að hækka hratt. Í mars var tíðni umframdauðsfalla 53,4 prósent. Sú hæsta sem mælst hefur í álfunni, en þá var nýbúið að aflétta öllum hömlum hérlendis vegna faraldursins.

Síðan þá hefur tíðnin lækkað og er Ísland meðal þeirra Evrópulanda þar sem tíðnin er lægst. Undanfarna mánuði hefur staðan gjarnan verið verst við Miðjarðarhafið, það er á Spáni, í Portúgal, Grikklandi og víðar.