Landspítali segir áhrif nefúða sem fjallað var um í gær ekki liggja fyrir og að umfjöllunin hafi komið á óvart en líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær er um að ræða nef- og munnúða frá dótturfyrirtæki Kerecis sem á að drepa veirur, þar á meðal veiruna sem veldur COVID-19.

Að því er kemur fram í tilkynningu Landspítala er spítalinn háskólasjúkrahús sem sér ekki aðeins um að veita heilbrigðisþjónustu heldur sinnir einnig starfsfólk spítalans margháttuðu vísindastarfi í samvinnu við ýmsa aðila og í samræmi við tilskilin leyfi.

„Vísindastarf fjallar um hið óþekkta, í þeim tilgangi að upplýsa það sem ekki er vitað og afla nýrrar þekkingar. Áhrif nefúða sem fjallað var um í fréttum gærdagsins eru, eftir því sem Landspítala er kunnugt um, óþekkt,“ segir í tilkynningunni en þar segir að niðurstöður rannsókna þurfi ávalt að liggja fyrir áður en fullyrt er um gagnsemi nýrra meðferða.

Settu úðann á markaðinn af siðferðislegum ástæðum

Líkt og áður kom fram fjallaði Fréttablaðið um úðann í gær og var þar rætt við Guðmund Fertram Sigurjónsson, stofnanda og forstjóra Kerecis. Þar kom fram að rannsóknir á úðanum væru enn í gangi, þar á meðal á Landspítala, en rannsóknir erlendis bentu til að úðinn drepur 99,97 prósent veirunnar.

Guðmundur tók fram að rannsóknum væri ekki lokið, COVID-göngudeild Landspítalans hefur umsjón með rannsókninni hér á landi og var 128 smituðum einstaklingum boðin þátttaka í samanburðarrannsókn. Fyrirtækið hugsaði lengi um hvort bíða ætti eftir niðurstöðum áður varan væri sett á markað en að sögn Guðmundar gátu þau ekki beðið af siðferðislegum ástæðum.

„Klínískar rannsóknir taka langan tíma. Við vitum frá rannsókninni í Utah að þetta drepur vírusinn á skilvirkan hátt á rannsóknarstofu. Hvað getum við annað en að setja þetta á markaðinn? Á næstu mánuðum koma niðurstöður úr fleiri rannsóknum, meðal annars frá Landspítalanum, og þar með munu gögn um virkni vörunnar styrkjast enn frekar,“ sagði Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.