Mjög þung um­ferð hefur verið á höfuð­borgar­svæðinu í kvöld eins og sjá má af með­fylgjandi mynd sem var tekin á Sæ­brautinni á sjötta tímanum.

Að sögn vakt­stjóra um­ferðar­deildar lög­reglunnar voru að­stæður á Sæ­brautinni líkt og um morguntraffík væri að ræða, þung um­ferð sem gekk mjög hægt. Á­stæðurnar eru fyrst og fremst mikil snjó­koma og margir öku­menn á sumar­dekkjum og illa búnum bílum.

Vakt­stjóri telur út­lit fyrir að teppan sé að liðkast til en vill þó brýna fyrir fólki að vera ekki á ferðinni á slíkum bílum.'

Að sögn veg­faranda sem Frétta­blaðið ræddi við eru dæmi um að öku­menn hafi stytt sér leið yfir um­ferðar­eyjur og gróin svæði á Sæ­brautinni til að komast leiðar sinnar.

Á­rekstur undir Arnar­nes­brú

Tveir bílar rákust á hvorn annan á Hafnar­fjarðar­vegi við Arnar­nes­brú, á milli Kópa­vogs og Garða­bæjar á fimmta tímanum í dag. RÚV hefur það eftir varð­stjóra slökkvi­liðsins á höfuð­borgar­svæðinu að minni­háttar slys hafi orðið á fólki.

Um var að ræða sendi­bíl og fólks­bíl og ók annar þeirra aftan á hinn. Við höggið snerust bílarnir þannig að þeir loka alveg fyrir um­ferð um Hafnar­fjarðar­veg. Að sögn Ás­geirs Þórs Ás­geirs­sonar, yfir­lög­reglu­þjóns hjá um­ferðar­deild lög­reglunnar, eru báðir bílarnir ó­öku­færir.

Skömmu eftir á­reksturinn undir Arnar­nes­brú barst lög­reglunni til­kynning um á­rekstur á Hafnar­fjarðar­vegi við Hamra­borg sem tafði um­ferðina enn frekar. Þegar verst lét tók um hálf­tíma að komast frá Hlemmi að Kringlunni, og um­ferðin mjakaðist lötur­hægt á­fram suður eftir Kringlu­mýrar­braut og Hafnar­fjarðar­vegi.