Það hefur ekki verið fyrirhafnarlaust fyrir íslenska ríkið að koma málum þannig fyrir í réttarkerfinu að mál séu flutt í samræmi við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Í þriðja skiptið verða umferðarlagabrot til þess að kollvarpa íslenska dómskerfinu.

Sami maður – sitthvor hatturinn

Árið 1986 lagði maður að nafni Jón Kristjánsson fram kæru til Mannréttindanefndar Evrópu sem þá hét, á þeim grundvelli að brotið hefði verið gegn ákvæði sáttmálans um réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól. Hann hafði hlotið dóm fyrir að aka yfir gatnamót á rauðu ljósi. Jón vísaði í kæru sinni til þess að mál hans hefði verið rannsakað af lögreglustjóranum á Akureyri og dæmt af sakadómaranum á Akureyri en um einn og sama embættismann var að ræða.

Mannréttindanefndin komst einróma að þeirri niðurstöðu að þessi skipan samræmdist ekki ákvæði 6. gr. sáttmálans og vísaði málinu til Mannréttindadómstólsins.

Alþingi Íslendinga rauk til í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar og réðst í heilmiklar kerfisbreytingar og vorið 1989 voru lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði samþykkt. Ríkið leitaði í kjölfarið sátta við Jón og lauk máli hans í Strassborg þar með.

Lögfræðingar í dómaraþjálfun

Með lögunum sem sett voru 1989 voru átta héraðsdómstólar settir á laggirnar og 38 dómarar skipaðir. Flestir við Héraðsdóm Reykjavíkur. Auk dómaranna voru ráðnir þrettán dómarafulltrúar.

Í greinargerð með lögunum kom fram að nauðsynlegt væri að viðhalda dómarafulltrúastöðunum vegna mikilvægis þess að þjálfa lögfræðinga í dómaraverkum. 

Var nú kyrrt um hríð og Hæstiréttur gerði ekki athugasemdir við hina nýju skipan mála í bili.

Vorið 1995 skipti rétturinn hins vegar snögglega um gír. Og aftur var það umferðarlagabrot sem skók kerfið. Maður var dæmdur fyrir umferðarlagabrot og brot á reglum um hámarksöxulþunga bifreiða. Það var dómarafulltrúi við Héraðsdóm Austfjarða sem kvað upp dóminn yfir manninum. 

Hann vildi ekki una því að fulltrúi í stað skipaðs dómara dæmdi sig til refsingar.

Hæstiréttur féllst á málsástæður mannsins, sem voru meðal annars þær að ráðningarkjör dómarafulltrúa sem ekki voru æviráðnir, eins og skipaðir dómarar, fælu það í sér að dómsmálaráðherra gæti afturkallað löggildingu þeirra og vikið þeim úr starfi án þess að bera það undir dómstóla. Framkvæmdarvaldið gæti því með áhrifum sínum og ráðstöfunum bundið enda á ráðningu þeirra með skömmum fyrirvara. Af þessum sökum væri ekki tryggt að dómarafulltrúi væri óvilhallur eins og ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmálans áskilja.

Dómurinn kom ýmsum á óvart enda hafði Hæstiréttur ekki gert athugasemdir við dóma fulltrúanna fram að þessu. Á það er hins vegar að líta að þegar þessi dómur gekk var ár liðið frá lögfestingu Mannréttindasáttmálans og samþykkt nýrra mannréttindaákvæða í stjórnarskrá handan við hornið. Ekki er ólíklegt það hafi haft áhrif.

Í kjölfar dómsins þurfi að taka upp aðskilnaðarlögin og binda enda á dómaraþjálfun lögfræðingastéttarinnar og skipa þá dómara, enda talið eftir nýja dóminn að dómarafulltrúarnir gætu ekki að óbreyttum lögum sinnt neins konar dómstörfum. Þegar dómur féll var ný löggjöf um framtíðarskipan dómsmála í undirbúningi hjá réttarfarsnefnd en dómsmálaráðherra taldi nauðsynlegt að bregðast strax við, „til að koma í veg fyrir að ófremdarástand skapist hjá héraðsdómstólunum þar til tími vinnst til að gera endanlegar tillögur um dómstólaskipan."

Með lögunum var samþykkt að dómsmálaráðherra gæti skipað dómarafulltrúa til að framkvæma dómsathafnir í umboði dómara og að um brottvikningu þeirra giltu sömu ákvæði og um skipaða dóma.

Vildu auka verndina enn

Og var nú kyrrt lengi eða allt þar til menn fóru að huga að rétti manna til að fá dóma endurskoðaða að öllu leyti á æðra dómstigi, en allt þar til Landsrétti var komið á var ekki unnt að fá sönnunarfærslu í héraði endurskoðaða fyrir Hæstarétti. Markmið millidómstigsins var ekki síst að uppfylla skilyrði Mannréttindasáttmálans um þessa endurskoðun. Það tókst þó ekki betur en svo að skipun þeirra dómara sem úr þessu áttu að bæta hefur verið dæmd ólögmæt og í andstöðu við 6. gr. sáttmálans. Það er ef til vill óþarft að taka það fram en enn og aftur var það umferðarlagabrot sem varð kerfinu að falli.

Ófremdarástand og réttaróvissa 

Þær kollsteypur sem kerfið hefur mátt þola vegna þessara þriggja umferðarbrotamála hafa valdið mismiklum usla í dómskerfinu sjálfu og ekki er ólíklegt að vandinn verði mestur í þetta skipti. Því getur meðal annars ráðið að lög um endurupptöku mála hafa verið rýmkuð töluvert og taka nú til mála þar sem ætla má að verulegur ágalli hafi verið á meðferð máls. Auk þess eru menn meðvitaðari um réttindi sín en áður, bæði til að beiðast endurupptöku og einnig í almennu tilliti.

Aðskilnaðarmál 1990

Þeir sem Fréttablaðið ræddi við um meðferð dæmdra mála í fyrri tilvikunum mundu ekki til þess að hróflað hafi verið við málum sem þegar höfðu fallið, eða að Hæstiréttur hefði tekið til við að ómerkja dóma vegna máls Jóns Kristjánssonar og sáttarinnar í Strassborg.

Það kann að hafa áhrif að á þessum tíma var hvorki búið að lögfesta Mannréttindasáttmála Evrópu, né farið að huga að endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar og borgarar því almennt ekki að velta því jafn mikið fyrir sér að þeir nytu réttinda gagnvart ríkisvaldinu.

Dómarafulltrúamál 1995

Í kjölfar dómarafulltrúadómsins ómerkti Hæstiréttur hins vegar alla dóma sem dæmdir höfðu verið af dómarafulltrúa og vísaði þeim aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Þau mál sem voru undir áfrýjun og höfðu verið dæmd af fulltrúum voru ómerkt og vísað aftur heim í hérað til nýrrar meðferðar. Hins vegar var ekki hróflað við þeim málum sem þegar höfðu verið dæmd í Hæstarétti.

Landsréttarmál 2019

Þeir fjórir dómarar sem dómur MDE tekur til hafa kveðið upp 506 dóma og úrskurði frá því rétturinn tók til starfa. Í flestum tilvikum er um úrskurði að ræða en dæmd einkamál eru 110 og sakamál 82 talsins. Í 75 þeirra var hinn ákærði sakfelldur.

Búist er við að Hæstiréttur muni þurfa að ómerkja fjölda dóma og vísa þeim aftur til Landsréttar til nýrrar meðferðar í kjölfar dóms MDE. Þar verði málin tekin aftur fyrir og dæmd af öðrum en þeim fjórum dómurum sem dómurinn tekur til. Gera má ráð fyrir því að fjöldi beiðna um endurupptöku mála verði sendar endurupptökunefnd. Rúmt ár er síðan rétturinn tók til starfa og því ljóst að búið er að fullnægja föllnum dómum í fjölda tilvika.