Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, segir athugasemdir stúdenta vegna nýrra laga um Menntasjóð námsmanna sem tóku í gildi um mitt ár 2020 vera mun umfangsmeiri en hún átti von á miðað við hvað lögin eru ný og hversu miklu var breytt.

Í lögunum komi fram að ráðuneytið þyrfti að skila skýrslu um árangur þeirra haustið 2023 og nú sé verið að taka saman gögn og athugasemdir frá stúdentum.

Skilar skýrslu í haust

Áslaug Arna segir takmarkaða reynslu komna á sum atriði í nýju lögunum en að miklum athugasemdum hafi verið skilað um aðra sem þurfi að líta til. „Ég býst við að skila inn skýrslu í þingið í haust og á grundvelli þess metum við hversu víðtækar breytingar við förum í.

Alexandra Ýr van Erven, forseti Landssamtaka Íslenskra Stúdenta, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að vextir námslána hefðu aldrei verið hærri og að Íslendingar ættu Evrópumet í fjölda háskólanema sem fullyrtu að án launaðrar vinnu gætu þau ekki verið í námi. Það sé áfellisdómur gagnvart námslánakerfinu og að lántökum hafi fækkað um helming á síðustu tíu árum. Hún segir þetta benda til að kerfið grípi ekki þá sem mest þurfi á því að halda.

Áslaug Arna segir mikilvægt að skoða stöðu ákveðna hópa sérstaklega. „Markmiðið með kerfinu er auðvitað að allir hafi aðgang að háskólanámi. Geti leitað í stuðning en líka það að það séu ákveðnir hvatar í því og styrkir eins og komið var á fót.“

Námslánin þurfi að duga

Að sögn Áslaugar Örnu eru athugasemdir stúdenta sem fyrr segir miklar og segir hún mikilvægt að skoða þær áður en ályktun sé dregin um hvaða breytingar verði ráðist í.

Aðspurð hvað henni þyki um met Íslendinga í stúdentum sem sjá sér ekki fært um að stunda nám nema með vinnu segir Áslaug Arna það vera alvarlegt.

„Það er auðvitað alvarlegt ef staðan er þannig að þú getur ekki lagt hundrað prósent áherslu á að vera í námi án þess að vinna. En á sama tíma hafa komið fram áskoranir frá stúdentum að frítekjumörk atvinnutekna sé hærra, að það sé tekið tillit til þess að nemar á Íslandi vinni almennt meira til dæmis í fríum, sumarfríum og þegar skólinn er ekki í gangi. Það eru tvenns konar athugasemdir, annars vegar það að fá að vinna meira án þess að það skerði námslánin þín og síðan það að námslánin dugi,“ segir Áslaug Arna að lokum.