Mál karlmanns á fimmtugsaldri, sem er ákærður fyrir fjölda grófra brota gegn börnum, er töluvert viðameira en fyrstu fréttir gáfu til kynna fyrr í vikunni. Karlmaðurinn er ákærður fyrir alls sautján brot gegn fimm börnum en greint var frá því á vef RÚV í dag að lögreglan rannsaki tugi brota til viðbótar og að fjölgað hafi verið í starfsliði Barnahúss vegna rannsóknar málsins en þangað fara börn í skýrslutöku sem brotið hefur verið á.
DV greindi frá því í gær að hinn grunaði heitir Brynjar Joensen Creed en fyrst var greint frá málinu áþriðjudag á vef Vísis. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í síðasta mánuði. Það má búast við því að dómur falli á næstu dögum.
Fram kom í umfjöllun Vísis um ákæruna gegn manninum að hann hafi verið ákærður fyrir að nauðga fjórum stúlkum á barnsaldri og beitt þær allar, auk þeirrar fimmtu ítrekað kynferðisofbeldi og -áreitni. Sumum nauðgaði hann oftar en einu sinni. Hann er einnig ákærður fyrir brot gegn barnaverndar- og áfengislögum og lögum um rafrettur en hann fékk unga stúlku til að senda sér kynferðislegar myndir í gegnum smáforritið Snapchat auk þess sem hann sendi myndir af sér með öðrum brotaþola að hafa við sig munnmök. Þá kemur einnig fram í ákærunni að hann hafi gefið stúlkunni kynlífshjálpartæki, rafrettur og ýmsa fylgihluti sem fylgir þeim auk nærfata.
Á tveimur farsímum mannsins fundust níu myndbönd og 52 ljósmyndir af einni stelpunni sem hrann braut á sem sýndu hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt og er hann einnig ákærður fyrir það.
Í frétt RÚV um málið í dag sagði Kolbrún Benediktsdóttir héraðssaksóknari að gefin hafi verið út ákæra vegna hluta málanna sem eru til rannsóknar vegna þess að ekki er heimilt að halda sakborningum í gæsluvarðhaldi en tólf vikur. Enn eru til rannsóknar fleiri mál sem eftir á að gefa út ákærur vegna.