Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á útlendingalögum. Fyrsta umræða um málið fer fram á Alþingi í dag. Frumvarpið nokkrum sinnum verið lagt fram, fyrst af Sigríði Á Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra. Það hefur verið umdeilt bæði á Alþingi og meðal umsagnaraðila og hefur ekki náð fram að ganga.

Frumvarpið er að uppistöðu viðbrögð við mikilli fjölgun umsækjenda um hæli hér á landi, meðal annars frá fólki sem þegar hefur verið veitt vernd í öðrum Evrópuríkjum.

Í frumvarpinu er fjallað um forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna, málsmeðferðartíma umsókna barna um alþjóðlega vernd, hvenær taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, hlutverk Barnaverndarstofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málefnum fylgdarlausra barna sem sækja um slíka vernd hér á landi.

Þá er orðalagi útilokunarástæðna við ákvörðun um ríkisfangsleysi breytt, fjallað um réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði íslenskra stjórnvalda, fjölskyldusameiningu flóttafólks, afturköllun verndar sem veitt er á grundvelli slíkrar sameiningar og hvenær veita beri þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á samkvæmt lögunum og hvenær sé eðlilegt að hún falli niður.

„Hér er komin gamall kunningi sem inniheldur að meginefni sömu pólitík og nálgun á málefni útlendinga og hjá fyrrverandi dómsmálaráðherra.”

„Hér er komin gamall kunningi sem inniheldur að meginefni sömu pólitík og nálgun á málefni útlendinga og hjá fyrrverandi dómsmálaráðherra,” segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar en hún hefur verið gagnrýnin á umrætt frumvarp frá því það kom fyrst fram.

Þingkonan Rósa Björk Brynjólfsdóttir hefur verið gagnrýnin á fyrirhugaðar breytingar.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Verndarkrefið ráði ekki við tilhæfulausar umsóknir

Í frumvarpinu er lagt til að nokkur ákvæði reglugerðar sem sett var árið 2017 til að draga úr fjölda umsókna frá ríkisborgurum svokallaðra öruggra upprunaríkja, verði tekin upp í lögin sjálf, til að tryggja umræddum ákvæðum öruggari lagastoð.

Einnig er lagt til að ákvæði sem varða umsækjendur sem hlotið hafa vernd í öðru Evrópuríki verði færð nær þeirri löggjöf sem gildir í öðrum Evróupuríkjum.

„Þótt íslenska ríkið sé ekki skuldbundið til þess að innleiða þær gerðir eru íslenskar og evrópskar reglur samofnar vegna samvinnu Íslands og Noregs við Evrópusambandið, þ.m.t. vegna Dyflinnarsamstarfsins. Þykir því nauðsynlegt að taka mið af regluverki í öðrum Evrópuríkjum á þessu sviði, einkum til að komast hjá ósamræmi og óvissu um það hvernig eigi að framfylgja lögum um umsækjendur um alþjóðlega vernd. Rík sérstaða og frávik varðandi málsmeðferð einstakra hópa ásamt frjálsri för um svæðið ýtir undir þá þróun að hingað komi mikill fjöldi einstaklinga sem þegar hefur sótt um vernd í öðrum Evrópuríkjum í meira mæli en stjórnsýslan ræður við,“ segir meðal annars í greinargerð með frumvarpinu.

Stefnt að því að fylgja fordæmi annarra Norðurlanda

Þá kemur fram í greinargerð að ekkert hinna Norðurlandanna geri sínum stjórnvöldum skylt að kanna sérstakar ástæður og sérstök tengsl í málum þeirra sem hafa þegar hlotið vernd í öðru Evrópuríki. Á öllum hinum Norðurlöndunum geti stjórnvöld synjað umsækjendum um alþjóðlega vernd um efnismeðferð ef þeir eru nú þegar með vernd í öðru Evrópuríki.

„Lögin hér á landi þurfa að kveða skýrt á um að þeir sem þegar njóta verndar í Evrópu geti ekki að ástæðulausu knúið fram endurtekna málsmeðferð hér á landi.“

„Lögin hér á landi þurfa að kveða skýrt á um að þeir sem þegar njóta verndar í Evrópu geti ekki að ástæðulausu knúið fram endurtekna málsmeðferð hér á landi,“ segir í frumvarpinu en í því er lagt til að umsóknir þessara einstaklinga verði ekki lengur teknar til efnismeðferðar á grundvelli undantekninga „um sérstök tengsl og sérstakar ástæður,“ eins og gert hefur verið. Áréttað er þó í frumvarpinu að ástand og aðstæður í móttökuríki séu alltaf kannaðar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Ekki tekið undir athugasemd Flóttamannastofnunar

Í nýju ákvæði sem bæta á við lögin segir að endurteknum umsögnum verði vísað frá, fylgi henni ekki gögn eða upplýsingar sem leiði til þess að verulega auknar líkur séu á að umsækjanda verði veitt vernd eða dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar sinnar og þau gögn eða upplýsingar hafi ekki legið fyrir við fyrri málsmeðferð.

Einnig er kveðið á um að umsókn sé vísað frá sé umsækjandinn ekki á landinu þegar hún er lögð fram. Þegar frumvarpið var síðast til meðferðar á þingi gerði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði gert athugasemdir við skilgreiningu frumvarpsins á endurtekinni umsókn, einkum að umsókn geti talist endurtekin í þeim tilvikum sem umsækjandi hefur dregið fyrri umsókn til baka og ekki hefur verið tekin ákvörðun í fyrra máli hans. Í frumvarpinu er ekki tekið undir þessa gagnrýni. Skilgreining frumvarpsins sé í samræmi við sambærilegt hugtak í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um lágmarkskröfur til málsmeðferðar í aðildarríkjum við veitingu og afturköllun á stöðu flóttamanns.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um umsögn Barnaverndarstofu í málum fylgdarlausra barna, fjölgun nefndarmanna í kærunefnd útlendingamála og breytingar á ákvæðum laganna um brottvísanir í kjölfar úttektar á þátttöku Íslands í Schengen svæðinu.

Að lokum eru í frumvarpinu ákvæði sem ætlað er að auðvelda atvinnuþátttöku útlendinga. Þannig verði þeim sem fá dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, ekki gert að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi heldur verði heimilt að vinna hér á landi þegar þeir hafa fengið atvinnuleyfi. Þá taki heimild ungs fólks til vistráðningar til tveggja ára en ekki aðeins eins árs eins og núgildandi lög kveða á um.