Jeffrey Ross Gunter, lauk sínum síðasta degi sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook og Twitter síðu sendiráðsins.
Gunter hefur reynst nokkuð umdeildur tíma sinn í sendiráðinu. Í október síðastliðnum sakaði hann Fréttablaðið um falsfréttaflutning í Facebook færslu sem birtist um miðja nótt.
Var það í kjölfar fréttaflutnings blaðsins af COVID smiti starfsmanns í miðjum flutningum sendiráðsins á Engjaveg. Var blaðamanni blaðsins í kjölfarið meinað að sækja hringborðsumræður í sendiráðinu um öryggismál á Atlantshafi, einn íslenskra blaðamanna.
Þá greindi bandaríska sjónvarpsstöðin CBS frá því í sumar að sendiherrann hefði óskað eftir því að fá að fá að bera byssu á Íslandi. Hann hefði auk þess óskað eftir aukinni öryggisgæslu, þrátt fyrir að honum hefði ítrekað verið gert grein fyrir því af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að hann væri ekki í neinni hættu í landinu.
Þá tísti sendiherrann jafnframt um sameiginlega baráttu Íslands og Bandaríkjanna gegn „ósýnilegu Kínaveirunni“ í júlí. Söfnuðu Bandaríkjamenn búsettir á Íslandi í kjölfarið undirskriftum og hvöttu íslensk stjórnvöld til að vísa sendiherranum úr landi.
Í síðasta ávarpi sínu segir Gunter að samstarf landanna tveggja sé gott. Hann þakkar Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna auk þess fyrir tækifærið. Gunter hafði fram til þessa verið reynslulaus sem erindreki en var ötull stuðningsmaður Trump og hafði áður starfað sem húðsjúkdómalæknir í Kaliforníu.