Umdeildu frumvarpi Svissneska þjóðarflokksins um innflytjendamál var hafnað með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag. 62 prósent kusu gegn frumvarpinu en 38 með því. Ef frumvarpið hefði orðið að veruleika væri samningur milli Sviss og Evrópusambandsins um frjálsa för fólks úr sögunni.

„Þetta var slagur á milli Davíðs og Golíats. En við munum halda áfram að berjast og ná aftur yfirráðum í innflytjendamálum okkar,“ sagði Marco Chiesa, formaður Svissneska þjóðarflokksins, þegar niðurstöðurnar lágu fyrir.

„Tvíhliða samband er rétta leiðin fyrir Sviss og Evrópusambandið. Svissneska þjóðin hefur ítrekað það í dag,“ sagði Karin Keller-Sutter, dómsmálaráðherra og þingmaður Frjálslynda flokksins. Hafi margir kjósendur haft áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum þess að missa samninginn við Evrópusambandið og að missa dýrmætt vinnuafl.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mjög algengar í Sviss. Kosið var um ýmis önnur mál þó að innflytjendafrumvarpið hafi verið það umtalaðasta. Meðal annars var tveggja vikna feðraorlof samþykkt í fyrsta skipti í landinu, sem og að kaupa nokkrar orrustuþotur fyrir flugherinn. Frumvarpi um að fækka í stofni úlfa og annarra villtra dýrategunda var hins vegar hafnað.