Sveitarfélög Rekstraraðstæður sveitarfélaga eru mismunandi og munar sum þeirra mikið um framlag úr Jöfnunarsjóði. Þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar og frambjóðendur leggja línur að kosningaloforðum og helstu stefnumálum, má vænta þess að fjörug umræða skapist á næstu mánuðum um hvort skipting opinberra fjármuna úr sjóðnum sé réttmæt.

Flest sveitarfélög eru með hæstu leyfilegu útsvarsprósentu. Lægst má útsvarið vera 12,44% en hámarksútsvar er 14,52%.

Reykjanesbær fær hæsta heildarframlag úr Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022, rétt um 2,5 milljarða. Ef útgjaldajöfnunarframlög eru ein og sér skoðuð fá svokölluð fjölkjarnasveitarfélög mest. Múlaþing trónir á toppnum, fær 713 milljónir króna, Skagafjörður er í öðru sæti með 589 milljónir og Borgarbyggð er í þriðja sæti með 543 milljónir króna.

Garðbæingar, sem borga mun lægra útsvar en Reykvíkingar, fá grunnskólaframlag sem Reykjavíkurborg fær ekki. Garðbæingar greiða 13,7 prósenta útsvar en Reykvíkingar 14,52 prósent. Árið 2017 var stofnuð nefnd sem lagði fram tillögu um að ef sveitarfélag nýtti ekki útsvarshlutfall sitt að fullu ætti að skerða framlög úr Jöfnunarsjóði sem næmi vannýttum útsvars­tekjum. Tillagan náði ekki fram að ganga. Fréttablaðið hefur rætt við sveitarstjórnarfólk sem þykir ósanngjarnt hvernig staðið er að málum. Garðabær fær 644 milljónir úr Jöfnunarsjóði árið 2022.

„Ég hef ríkan skilning á að sumum sveitarstjórnarmönnum þyki sérkennilegt að þegar útsvarsstofn er ekki fullnýttur fái sveitarfélögin á sama tíma greiðslur úr Jöfnunarsjóði,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga.

Reykjavík er með dómsmál í gangi gegn sjóðnum. Einnig hefur verið tekist á um hvort réttlætanlegt sé fyrir sveitarfélög sem reiða sig á Jöfnunarsjóð, að bjóða jafnvel gjaldfrjálsa þjónustu sem rukkað er fyrir á öðrum stöðum.

Jöfnuður verði að ríkja

Árið 2013 fékk Súðavíkurhreppur viðurkenningu frá menntamálaráðuneytinu fyrir gjaldfrjálsan leikskóla. Þótti skjóta skökku við þegar fyrrverandi sveitarstjóri hreppsins hvatti önnur sveitarfélög til að taka sama skref, á sama tíma og um helmingur tekna sveitarfélagsins kom úr Jöfnunarsjóði.

Bragi Þór Thoroddsen, núverandi sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, bendir á að aðeins örfá börn séu í leikskóla innan hreppsins. Auk þess vegi jöfnunarframlagið nú minna en áður í tekjum sveitarfélagsins. Leikskólinn sé enn gjaldfrjáls til að laða að nýja íbúa.

Aldís Hafsteinsdóttir segir að þótt tekist sé á um fjárveitingar verði að vera jöfnuður. Mestu varði að sveitarfélögin vanti meira fé til að sinna lögbundnum skyldum. Ágæt sátt sé um það innanlands að þjónusta eigi að vera svipuð hvar sem fólk býr.

„Það er erfitt að búa til kerfi sem allir geta sætt sig við, en það er mikilvægt að fólk geri sér ljóst að tekjumöguleikar sveitarfélaga eru mjög mismunandi. Kannski er það ekki besta meðferð opinbers fjár ef tekjur sem sveitarfélagið getur aflað er felldar niður.“