Drífa Magnús­dóttir, for­stöðu­kona Sund­hallarinnar, hafnar full­yrðingum fjöl­miðla­mannsins Ei­ríks Jóns­sonar um dul­búna skatta­hækkun í höllinni vegna breytinga á lá­sa­kerfi í búnings­klefum. Gestir séu ekki til­neyddir til að kaupa hengil­ása, um sé að ræða til­rauna­verk­efni.

Þó segir hún að um sé að ræða meirihluta skápa í karlaklefanum. Hún segir skápana að mestu friðaða og erfitt að eiga við þá, því sé um að ræða til­raun.

Ei­ríkur greinir frá því á vef­síðu sinni að búið sé að endur­nýja skápa í Sund­höllinni og breyta lá­sa­kerfi. Lyklar verði af­lagðir og nú eigi gestir að koma með eigin hengil­ása. Hægt verði að kaupa lása í af­greiðslunni, tölu­lása á 1500 krónur og lykla­lása á 1000 krónur.

Skjáskot/eirikurjonsson.is

„Ég setti upp miða í þessu rými þar sem þessir skápar eru, þar sem stendur að hér geti fólk verið með eigin hengil­ása sem fást í flestum járn­vöru­verslunum og víðar en auk þess eigum við nokkra lása hér sem fólk getur keypt á kostnaðar­verði og við höfum líka mikið verið að lána lása og alls­konar, þetta er bara til­rauna­verk­efni,“ segir Drífa. Enn séu um 30 skápar eftir með lyklum.

„Það eru ansi margir sem mæta hingað sem eiga svona lása í í­þrótta­töskunni sinni,“ bætir hún við. „Þetta eru 68 skápar sem eru fyrir hengilása á meðan að lyklaskápar eru mun færri,“ segir Drífa.

„Útiklefi er ekki talinn með hérna og þetta einungis við um karlaklefann uppi. Unnið er að endurbótum á gamla kvennaklefanum niðri, ekki liggur fyrir hvernig fyrirkomulagið verður á klefum þegar hann er tilbúinn.“

Drífa segir að það sé vanda­mál í höllinni eins og í sund­laugum víða, að lyklum sé iðu­lega stolið. „Nú var frétt um daginn um lykla­stuld í Grafar­vogs­laug, þetta er í öllum laugum og er alls­staðar svona. Það er mikil vinna að halda utan um þetta og liggur í þessu mikill kostnaður.“

Drífa segir að­spurð að það sé meðal annars vegna þess að þetta sé prófað núna. „Fólk gjarnan tekur lyklana með sér, af því að þetta er þeirra skápur. Eða þá eins og í Grafar­vogi, þá eru þetta ein­hverjir húmor­istar sem finnst fyndið að fela lykla. Svo bara skemmist þetta og þetta er rosa mikil vinna að halda þessu lagi.“

Hún segist gjarnan myndu vilja sjá aðrar lausnir en það fyrir­komu­lag sem tíðkast á lykla­málum í búnings­klefa sund­lauga í dag. „En við erum ekkert að fara að breyta neinu strax, þarna var bara verið að endur­nýja þessa skápa á vor­dögum og þetta til­rauna­verk­efni í fram­haldi af því.“

Frétt uppfærð kl. 16:51.