Nemendur sem vilja sækja nám í lögreglufræðum þurfa að vera orðnir tvítugir þegar lögreglunám þeirra hefst.

Nítján ára maður sem verður tvítugur nokkrum dögum eftir að kennsla hefst í faginu næsta haust segist hafa orðið hissa og leiður þegar hann sendi inn umsókn fyrir skömmu og var hafnað um inngöngu á grunni fæðingardags.

Maðurinn þarf að bíða í heilt ár þar sem námið hefst að hausti. Flestir útskrifist nú 19 ára sem stúdentar vegna styttingar framhaldsskólans. Hann viti engin dæmi um sambærilegar aldurskröfur eftir fæðingardegi hvað varðar annað nám.

Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, segir að umræða hafi orðið um þessi mál og að það sé umdeilt að nemar þurfi að hafa náð 20 ára aldri þegar þeir hefja námið. Lagabreytingu Alþingis þurfi á lögreglulögum til að breyta þessu.

„Við missum af umsækjendum vegna þessa. Mín skoðun er að best sé að hafa sem mesta aldursdreifingu í löggunni,“ segir Eyrún.

Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu, kannast við óánægjuna. „Þetta eru lögin en það mætti okkar vegna endurskoða fyrirkomulagið í samhengi við styttingu framhaldsskólans,“ segir hann.