Ákvörðun um að breyta nafni starfsmannafunda í Menntaskólanum við Sund í starfsfólksfundi fær misjafnar undirtektir.

Hjá MS fengust þær upplýsingar að um væri að ræða sömu breytingu og að tala frekar um öll velkomin í stað þess að ávarpa alla velkomna. Þetta væri gert til þess að engin væru skilin út undan. Skoðanir um málið væru þó skiptar í kennaraliðinu.

Njörður P. Njarðvík, prófessor emeritus, lýsir lítilli hrifningu með að orðið starfsmannafundur þyki ekki lengur tækt.

„Ég spyr: Eru þá engir starfsmenn lengur við þennan skóla?“ segir Njörður. „Þetta er afskræming tungumálsins í skjóli rétttrúnaðar.“

Í grein sem Njörður ritaði í Fréttablaðið fyrir stuttu benti hann á að orðið maður er heiti á tegund spendýra og tekur til karlmanna, kvenna, barna, trans fólks og kynleysingja.

„Þegar við segjum: allir velkomnir, tekur það til allra sem tilheyra þessari tegund án vísunar til sérstaks kyns,“ skrifaði Njörður í grein sinni og benti einnig á að á Íslandi gæti kona verið herra ef hún situr í ríkisstjórn.

„Ég held að menn þurfi að reyna að átta sig á því hvað orðið maður þýðir.“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, hafði ekki heyrt af því að stofnanir landsins væru að banna orðið starfsmannafundur. Hann segist styðja breytinguna og skilur rót breytinganna. Málið sé þó ekki alveg einfalt.

„Almennt skil ég þessa tilhneigingu að fólk reyni að komast hjá því að nota samsetninguna „maður“ af því að orðið tengist karlmönnum óneitanlega mikið í hugum fólks,“ segir Eiríkur. Þá telur hann til bóta í þessu samhengi að orðið starfsfólk sé fullkomlega viðurkennt.

Að sögn Eiríks er hins vegar sá galli á gjöf Njarðar að í mörgum tilvikum er ekki til eintöluorð sem leysir af hólmi orðið maður. Hann spyr hvaða orð komi í staðinn fyrir einn starfsmann. Þá sé starfsmannafundur óneitanlega þjálla orð en starfsfólksfundur.

„Það kemur þarna upp svolítið leiðinlegur samhljóðaklasi,“ segir Eiríkur en bendir einnig á að það eigi við um mörg önnur orð.