Ragnar B. Sæmundsson, formaður skipulags-og umhverfisráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins segir að með því að byggja á grunni Fjöliðjunnar sem varð illa úti í bruna sparist í bæjarsjóði 200 til 250 milljónir króna.

Enn var rætt á bæjarstjórnarfundi Akranes í gær um uppbyggingu húss Fjöliðjunnar sem brann vorið 2019 og í finnst enn mygla.

Aðstandendur þeirra sem starfa í Fjöliðjunnar eru uggandi yfir því og því mótfallnir að byggt verði upp hús sem í finnst mygla. Hefur einn þeirra spurt af hverju verið sé að taka áhættu með heilsu fólks. Tekin eru dæmi, t.d. frá Reykjavík, sem sýni að gríðarlega erfitt geti verið að ná niður myglu í byggingum og fólk veikist. Þeir hafa áhyggjur af því að þarna sé tekin áhætta með viðkvæman hóp, s.s. fjölfatlaða og þroskahamlaða starfsmenn Fjöliðjunnar.

Minnihlutinn í bæjarstjórn er andvígur því að gera upp hús Fjöliðjunnar sem brann en þar var og verður verndaður vinnu-og endurhæfingarstaður fyrir fólk með skerta starfsgetu. Verkís skilaði nýverið skýrslu þar sem kom í ljós að enn er mygla í húsinu, líkt og fannst fyrir brunann.

Ragnar hefur sagt að húsnæðið verði „skrælað að innan“, og farið verði eftir öllum leiðbeiningum sérfræðingar Verkís en sú verkfræðistofa hefur haft vinnu við Fossvogsskóla á sinni könnu en þar er enn mygla eftir að tvö ár eru liðin frá því myglan fannst þar fyrst.

Ragnar segir að ástand húsnæðisins hafi verið metið bæði almennt og einnig myglan sem finnst í því. „Ástand þess er heilt yfir talið nokkuð gott. Þegar þetta var allt tekið saman var niðurstaðan sú að við séum með gott húsnæði, húsnæði sem hefur reynst mjög vel en ekki síður húsnæði sem hefur mikið tilfiningarlegt gildi fyrir marga bæjarbúa. Svo er það þannig að þetta er langt frá því að vera „rústir“ . Húsnæðið skemmdist vissulega þegar kviknaði í því en því fer fjarri að hér sé um rústir að ræða,“ segir Ragnar.