Ábendingar sem borist hafa umboðsmanni Alþingis varðandi innilokun barna í skólum, benda til að hugsanlega hafi svör yfirvalda um málefnið ekki lýst stöðunni eins og hún er í reynd. Hann hefur því óskað frekari svara.

„Eins og fram kemur í bréfinu er tilefnið að þessu sinni ábendingar sem okkur hafa borist sem benda til þess að þau svör sem við höfum áður fengið séu þá hugsanlega ekki fyllilega nákvæm eða rétt og það er verkefni umboðsmanns núna að ganga úr skugga um hver staðan er í reynd og ganga á eftir því að við fáum réttar upplýsingar,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.

Skúli segir að bréfið hafi nú þegar leitt til þess að embættinu hafi borist fleiri ábendingar. „Það virðist þannig vera tilefni til að kanna þetta mál frekar,“ segir hann.

Svörin ekki í samræmi við fyrri svör

Í bréfi umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að í kjölfar opinberrar umræðu um „innilokun grunnskólabarna í sérstökum herbergjum (sums staðar svokölluð gul eða rauð herbergi) og verklag í tengslum við hana“ og tilkynninga frá foreldrum barna sem hafi greint frá því að börn þeirra hafi verið innilokuð, jafnvel einsömul, hafi embættið ákveðið að óska á ný eftir þessum upplýsingum því að þær séu ekki í samræmi við þau svör sem að embættið fékk í fyrra.

Umboðsmaður spyr í þessu sambandi hvort borist hafi ábendingar, kvartanir eða kærur vegna slíkra mála frá síðasta svari. Hvort vart hafi orðið við þessa framkvæmd í skólum og hvort vitneskja sé um að í einhverjum grunnskólum sé fyrir hendi almennt skráð verklag um hana.

Skúli segir að hlutverk umboðsmanns sé að tryggja að borgararnir njóti réttar síns í samskiptum við stjórnvöld og þar undir falla réttindi barna í skólakerfinu. „Við tökum svona ábendingar alvarlega og ef við teljum ástæðu til þá könnum við þær frekar og reynum að sjá til þess að mál séu færð til betra horfs,“ segir hann.

Þrjú tilvik á fimm árum

Óskað er eftir svörum frá stjórnvöldum fyrir 1. nóvember. Sérstaklega er tekið fram að ef þar komi fram upplýsingar sem gefi tilefni til vettvangsheimsókna, verði farið í þær.

Í bréfum til sveitarfélaganna kemur fram að í fyrra þegar málið var kannað hafi fjögur sveitarfélög greint samtals frá þremur tilvikum á síðustu fimm árum þar sem þeim hafði verið tilkynnt um innilokun barna í skólanum. Voru tvær tilkynningar í Mosfellsbæ og ein í Reykjavík. Engar tilkynningar voru í Hafnarfirði og ekki á Akureyri, en þar var þó fjallað um agaúrræði sem kallaðist einvistun. Kallað var eftir upplýsingum frá 17 sveitarfélögum.

Bæði samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu og umboðsmanni barna var sent afrit af bréfunum til upplýsingar.