Umboðsmaður Alþingis mun ekki skoða sölu ríkisins á eignarhlutum sínum í Íslandsbanka að svo stöddu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umboðsmanni.
„Umboðsmanni hafa undanfarið borist erindi er lúta að sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. Að svo stöddu telur umboðsmaður ekki skilyrði til að embættið fjalli efnislega um þessar kvartanir eða taka málefni tengd sölunni upp að eigin frumkvæði,“ segir á heimasíðu umboðsmanns Alþingis.
„Helgast sú afstaða meðal annars af því að Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni fjármála- og efnahagsráðherra um að gera úttekt á útboðinu. Þá hefur fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafið rannsókn á tilgreindum þáttum sölunnar,“ segir þar enn fremur.
Þá bendir umboðsmaður á að Alþingi kunni sjálft að hlutast til um rannsókn málsins með skipun sérstakrar rannsóknarnefndar þegar úttekt Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.