Um­boðs­maður Al­þingis, Skúli Magnús­son, hefur óskað eftir bæði upp­lýsingum og skýringum frá dóms­mála­ráð­herra um breytingar á reglum um vald­beitingu lög­reglu­manna og með­ferð og notkun vald­beitingar­tækja og vopna, eða rafbyssa.

Ráðherra fær frest til 6. febrúar til að svara fyrirspurn hans en í bréfi sem umboðsmaður sendi á ráð­herra í gær leggur hann fyrir ráð­herra fjórar spurningar og honum bent á að sam­kvæmt lögum um Stjórnar­ráð Ís­lands skuli halda ríkis­stjórnar­fundi um mikil­væg stjórnar­mál­efni.

Eins og greint hefur verið frá í fjöl­miðlum undir­ritaði Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra reglu­gerð um beitingu og notkun raf­varnar­vopna, eða raf­byssa, í desember og var hún birt í stjórnar­tíðindum í gær og tók þar með gildi.

Um­boðs­maður spyr ráð­herra hve­nær hann undir­ritaði breytinguna á reglunum, hve­nær þær voru sendar til birtingar og hvort þær hafi sér­stak­lega verið kynntar ríkis­lög­reglu­stjóra eða honum gefin fyrir­mæli um undir­búning.

Þá er hann spurður um það hvort honum hafi verið kunnugt um af­stöðu for­sætis­ráð­herra, Katrínar Jakobs­dóttur, sem hafði áður sagt að það þyrfti að ræða málið í ríkis­stjórn áður en á­kvörðun yrði tekin. Þá óskar hann eftir öllum þeim gögnum sem ráð­herra á og geta varpað ljósi á mál­efnið, eins og undir­ritað ein­tak um­ræddra breytinga­reglna og stað­festingu á sendingu þeirra til birtingar í Stjórnar­tíðindum.

Hér á vef um­boðs­manns er fjallað nánar um málið.

Fyrr í morgun fór fram opinn fundur í alls­herjar- og mennta­mála­nefnd þar sem bæði ráð­herra og full­trúar ríkis­lög­reglu­stjóra fóru yfir málið með nefndar­mönnum.