Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, hefur óskað eftir bæði upplýsingum og skýringum frá dómsmálaráðherra um breytingar á reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, eða rafbyssa.
Ráðherra fær frest til 6. febrúar til að svara fyrirspurn hans en í bréfi sem umboðsmaður sendi á ráðherra í gær leggur hann fyrir ráðherra fjórar spurningar og honum bent á að samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands skuli halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg stjórnarmálefni.
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum undirritaði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra reglugerð um beitingu og notkun rafvarnarvopna, eða rafbyssa, í desember og var hún birt í stjórnartíðindum í gær og tók þar með gildi.
Umboðsmaður spyr ráðherra hvenær hann undirritaði breytinguna á reglunum, hvenær þær voru sendar til birtingar og hvort þær hafi sérstaklega verið kynntar ríkislögreglustjóra eða honum gefin fyrirmæli um undirbúning.
Þá er hann spurður um það hvort honum hafi verið kunnugt um afstöðu forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem hafði áður sagt að það þyrfti að ræða málið í ríkisstjórn áður en ákvörðun yrði tekin. Þá óskar hann eftir öllum þeim gögnum sem ráðherra á og geta varpað ljósi á málefnið, eins og undirritað eintak umræddra breytingareglna og staðfestingu á sendingu þeirra til birtingar í Stjórnartíðindum.
Hér á vef umboðsmanns er fjallað nánar um málið.
Fyrr í morgun fór fram opinn fundur í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem bæði ráðherra og fulltrúar ríkislögreglustjóra fóru yfir málið með nefndarmönnum.