Öllum svörum hefur nú verið skilað til Umboðsmanns Alþingis vegna rannsóknar embættisins á aðskilnaði barna frá samnemendur sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum í grunnskólum.
Frestur var upprunalega til upphafs mánaðar en eitt sveitarfélaganna, Hafnarfjörður, fékk frest til að skila um miðjan mánuð. Samkvæmt upplýsingum frá Umboðsmanni alþingis skilaði sveitarfélagið hluta gagnanna fyrir helgi og svo kláraði það að skila gögnum í gær.
„Nú erum við komin með svör frá þeim sveitarfélögum sem við spurðum auk viðbragða menntamálaráðuneytisins og það er þá spurning hvort að við ákveðum að afla frekari gagna,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, og að það geti gerst með ýmsum hætti.
„Það eru ýmsir aðilar sem geta komið að borðinu. Það eru fagfélög, foreldrar, það er hægt að fara á vettvang og tala við fólk á þessum stöðum og skoða aðstæður. Fyrsta umferð er búin en þar með er ekki sagt að rannsókn málsins sé lokið af hálfu umboðsmanns.“
Hin sveitarfélögin sem skiluðu gögnum voru Mosfellsbær, Akureyri og Reykjavíkurborg. Auk þess skilaði mennta- og menningarmálaráðuneytið gögnum til embættisins vegna málsins.
Tvö kærumál
Fjallað hefur verið í tengslum við þessi mál um tvær kærur sem lagðar hafa verið fram vegna ofbeldis gegn börnum og innilokunum þeirra í grunnskólum á Íslandi. Annað málið er í Suðurnesjabæ og hitt í Hafnarfirði.