Öllum svörum hefur nú verið skilað til Um­boðs­manns Al­þingis vegna rannsóknar embættisins á að­skilnaði barna frá sam­nem­endur sínum og vistun þeirra í sér­stökum rýmum í grunn­skólum.

Frestur var upprunalega til upphafs mánaðar en eitt sveitarfélaganna, Hafnarfjörður, fékk frest til að skila um miðjan mánuð. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Um­boðs­manni al­þingis skilaði sveitar­fé­lagið hluta gagnanna fyrir helgi og svo kláraði það að skila gögnum í gær.

„Nú erum við komin með svör frá þeim sveitar­fé­lögum sem við spurðum auk við­bragða mennta­mála­ráðu­neytisins og það er þá spurning hvort að við á­kveðum að afla frekari gagna,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, og að það geti gerst með ýmsum hætti.

„Það eru ýmsir aðilar sem geta komið að borðinu. Það eru fag­fé­lög, for­eldrar, það er hægt að fara á vett­vang og tala við fólk á þessum stöðum og skoða að­stæður. Fyrsta um­ferð er búin en þar með er ekki sagt að rann­sókn málsins sé lokið af hálfu um­boðs­manns.“

Hin sveitarfélögin sem skiluðu gögnum voru Mosfellsbær, Akureyri og Reykjavíkurborg. Auk þess skilaði mennta- og menningarmálaráðuneytið gögnum til embættisins vegna málsins.

Tvö kærumál

Fjallað hefur verið í tengslum við þessi mál um tvær kærur sem lagðar hafa verið fram vegna ofbeldis gegn börnum og innilokunum þeirra í grunnskólum á Íslandi. Annað málið er í Suðurnesjabæ og hitt í Hafnarfirði.