Undanfarin þrjú ár hefur verið unnið að talsverðum umbótum í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu þolenda. Frá því í janúar á þessu ári hefur verið framkvæmd þjónustukönnun meðal þolenda sem leita til lögreglunnar og þótt svo að langflestir séu ánægðir með viðmót, aðbúnað og framkomu rannsakenda þá kemur það skýrt fram í niðurstöðum að þolendur vilja betri og meiri upplýsingar um stöðu mála þeirra.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar, segir að könnunin hafi verið sent út mánaðarlega frá því í janúar til allra sem koma til þeirra sem eru yfir 18 ára aldri og að niðurstöðurnar séu mikilvægt tól fyrir deildina til að bæta vinnu sína.
Þolendum er boðið að taka þjónustukönnun til að segja frá sinni upplifun, annars vegar eftir skýrslutöku og svo eftir að þau kærðu eða málið var tekið áfram.
„Þetta er fyrst og fremst fyrir okkur til að sjá hvar við getum gert betur og hvað við erum að gera vel. Þetta snýr að því að bæta upplifun þeirra sem þurfa að koma hingað og segja sína sögu,“ segir Ævar Pálmi.
„Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að fólk sé að koma til að segja frá ömurlegum atburðum þá er það sátt við móttökurnar sem það fær hér og viðmót þeirra sem eru að rannsaka málið, auk aðbúnað og aðstöðuna sem er í boði hérna,“ segir Ævar.

Tveir lýsa ekki sama brotinu eins
Yfirheyrsluherbergið sem notað er fyrir þolendur kynferðisbrota er öðruvísi en önnur herbergi. Það hefur nýverið tekið í gegn að sögn Ævars Pálma.
Spurt er um ýmislegt í þjónustukönnuninni og nefnir Ævar Pálmi sem dæmi að fólk sé spurt að því hvort það hafi vitað af hverju það væri að koma, hvort að rannsóknarlögreglumaðurinn hafi útskýrt að hann myndi erfiðra spurninga og hvernig yfirheyrslan færi fram. Hvenær fólk mætti í skýrslutöku og hversu langt sé síðan.
„Það eru langflestir ánægðir með allt þetta en það sem fólk nefnir er að það skorti upplýsingar og það horfir líka á réttargæslumann. Þegar það er búið að kæra þá fer rannsóknin af stað og er í gangi. Þó það sé hringt í hverri viku er kannski ekki mikið að frétta á milli vikna en þjónustugáttin mun leysa þetta,“ segir Ævar Pálmi sem fer svo yfir niðurstöðurnar.
Spurð um hvort þeim hafi verið boðin þjónusta réttargæslumanns svara flestir að þeim hafi verið boðið það fyrir fyrstu skýrslutöku og flest séu komin með réttargæslumann áður en hún hófst.
„Það eru örfáir sem fengu réttargæslumann á meðan henni stóð,“ segir Ævar Pálmi.
Spurð um samráð varðandi tímasetningu skýrslutökunnar sögðu flestir að það væri mikið samráð. Spurð um upplýsingagjöf um hvernig skýrslutakan færi fram sögðu 90 prósent að það væri skýrt hvernig hún færi fram og spurð hversu vel þeim fannst þau undirbúin fyrir skýrslutökuna að henni lokinni sögðu 68 prósent að þeim hafi fundist þau koma vel undirbúin.
„En það komu ábendingar um að fá betri leiðbeiningar frá réttargæslumanni og einhverjir sögðu að þau hefðu viljað vita hversu langan tíma skýrslutakan myndi taka,“ segir Ævar Pálmi en bendir á að það sé erfitt að svara þeirri spurningu því hvert mál er einstakt og fólk misjafnt.
„Ef tvær manneskjur eiga að lýsa nákvæmlega sama brotinu þá geturðu verið með hálftíma skýrslutöku og þriggja tíma skýrslutöku,“ segir Ævar Pálmi.

Breyttu yfirheyrsluherberginu
Ævar Pálmi segir að árið 2020 hafi verið flókið fyrir deildina, þau hafi verið í hólfaskiptingu. Vanalega hafi þau verið með sérstakt herbergi fyrir skýrslutökur af þolendum kynferðisbrota en að það hafi ekki verið hægt að nota það alltaf í fyrra vegna hólfaskiptingarinnar.
Þannig séu niðurstöðurnar kannski ögn skakkar en samkvæmt þeim sögðu 70 prósent að umhverfið hafi verið hlýlegt og 50 prósent segja að það hafi verið róandi.
Þá segja 70 prósent að biðstofa lögreglunnar á Hverfisgötu sé óaðlaðandi.
„Það sem er áhugavert við þetta er að við bjuggum til nýtt herbergi því hitt var orðið lúið og húsgögnin þreytt. Þannig það væri gaman að sjá frá haustinu í fyrra, eftir að við tókum herbergið í gegn, hverjar niðurstöðurnar eru samanborið við áður,“ segir Ævar Pálmi sem segir að margir hafi haft orð á því að það hafi verið gott að vera í herberginu. Það hafi sem dæmi verið mikið hugsað út í hljóðvist og húsgögnin.
Ef tvær manneskjur eiga að lýsa nákvæmlega sama brotinu þá geturðu verið með hálftíma skýrslutöku og þriggja tíma skýrslutöku.
74 prósent vilja að kona framkvæmi yfirheyrslu
Ævar Pálmi segir að í undantekningartilfellum sé hægt að framkvæma skýrslutökur heima hjá fólki en í lögum um meðferð sakamála sé það þó skýrt tekið fram að hún skuli fara fram fyrir luktum dyrum sé þess kostur en á lögreglustöð eða í sérútbúnu rými. Hann segir að á lögreglustöðinni sé herbergið sérútbúið með myndavélum svo hægt sé að taka upp fyrir rannsóknina þannig gæðin séu upp á tíu.
„En í ákveðnum tilvikum förum við annað, ef til dæmis er um að ræða fatlaðan einstaklinga eða aldraðan sem á erfitt með að koma, eða ef maður veit að umhverfið muni raska ró viðkomandi mikið að taka hann úr sínu umhverfi.
Hann segir að samkvæmt könnuninni geri flestir sér þó engar væntingar um umhverfið og að það hafi ekki endilega komið þeim á óvart.
Ævar Pálmi segir að það hafi alveg komið skýrt fram í niðurstöðunum að það hins vegar skipti máli hver framkvæmir skýrslutökuna og hvers kyns sú manneskja er.
Í 73 prósent tilvika framkvæmdi kona skýrslutöku. Af þeim sem svörðu könnuninni fannst 38 prósentum kyn þess sem framkvæmir skýrslutöku skipta máli og 74 prósent vildu frekar konu, ef þau hefðu mátt velja.
Er þetta í samræmi við hlutfall brotaþola?
„Já, ég myndi halda það,“ segir Ævar Pálmi sem segir að hjá deildinni í dag starfi talsvert fleiri konur en karlmenn.
Hvað varðar framkomu rannsakenda segir Ævar Pálmi að almennt hafi niðurstöður verið jákvæðar en 75 prósent voru frekar eða mjög sammála um að rannsakandi hafi sýnt fagleg vinnubrögð og hlustað af athygli. Flestir eða 70 prósent voru ósammála fullyrðingum um að rannsakendur hefðu verið með fordóma gagnvart brotaþolum eða verið hrokafull.
„Heilt á litið virðist fólk telja þjónustuna sem við bjóðum upp á góða og ásættanlega. Þetta er það verkfæri sem við höfum til að meta þjónustuna og þróa hana í samræmi við niðurstöðurnar,“ segir Ævar Pálmi.
Hann segir að þegar þjónustugáttin opni horfi þau til þess að það komi betur út í þjónustukönnun hvernig fólk fær upplýsingar um stöðu síns máls og hvar það er statt.
Ekki er enn komin formleg dagsetning á hvenær gáttin verður opnuð en Ævar Pálmi segir að hún sé komin langt í prófunum.
Aukinn upplýsingaréttur til umræðu á Alþingi
Á Alþingi er nú til meðferðar frumarp dómsmálaráðherra sem ætlað að bæta réttarstöðu brotaþola annars vegar á meðan á rannsókn lögreglu stendur og hins vegar við meðferð máls fyrir dómi.
Í frumvarpinu er lagt til að að brotaþola sem fengið hefur réttargæslumann tilnefndan skuli upplýstur af lögreglu um framvindu rannsóknar máls nema talið verði að það torveldi hana. Þetta er breyting frá gildandi ákvæði sem kveður aðeins á um að lögregla skuli leiðbeina brotaþola um réttindi hans.
Um töluverða breytingu er að ræða þar sem frumkvæðisskylda er lögð á lögregluna til að veita upplýsingar um rannsókn máls. Í athugasemdum með frumvarpinu eru tekin dæmi um upplýsingagjöf til þolenda en hún geti til dæmis falið í sér upplýsingar um hvenær grunaður brotamaður hafi verið boðaður til skýrslutöku.
Þá er einnig í frumarpinu kveðið á um ríkari rétt réttargæslumanns til aðgangs að rannsóknargögnum en kveðið er á um í gildandi rétti. Í stað réttar til gagna sem varða þátt brotaþola er lagt til að veittur verði réttur til aðgangs að gögnum sem varða brotaþola.
Þolendum sem ekki hafa réttargæslumann verði hins vegar veittur réttur til aðgangs að upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að þeir geti gætt hagsmuna sinna.
Í báðum tilvikum getur lögregla takmarkað þessi réttindi telji lögregla hættu á að rannsókn málsins torveldist, sé aðgangur að upplýsingum veittur.
Vakin er athygli á því í frumvarpinu að umræddar breytingar taki ekki til allra brotaþola heldur takmarkist þær við þolendur alvarlegustu brota gegn líkama og persónu. Þar sem getið er sérstaklega um rétt þeirra sem fengið hafa réttargæslumann tilnefndan, er vísað til ákvæða sem kveða sérstaklega á um slíka tilnefningu. Það á við um þolendur kynferðisbrota, brotaþola sem eru yngri en átján ára og samkvæmt ósk brotaþola ef rannsókn beinist að brotum þeirra kafla hegningarlaganna sem fjalla um manndráp og líkamsmeiðingar og brot gegn frjálsræði manna.

Þrettán þolendur prófa gáttina
Þjónustugáttin hefur verið í þróun síðustu þrjú ár en í henni verða ýmsar upplýsingar um mál þolenda úr kerfi lögreglunnar þeim aðgengileg á netinu. Gáttin er núna í prófunarfasa og reiknað er með að það taki um tvo til þrjá mánuði. Vinna við þjónustugáttina er unnin í samvinnu við Ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra og er mikill metnaður lagður í verkefnið.
„Þetta er verkefni sem hófst fyrir þremur árum í tengslum við sérstaka fjárveitingu dómsmálaráðuneytisins í tengslum við kynferðisbrot,“ segir Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi, í samtali við Fréttablaðið, en hann er einn af þeim sem hefur unnið að þróun gáttarinnar.
Hann segir að verkefnið sé að mörgu leyti skemmtilegt því fjárveitingunni til að styrkja starf kynferðisbrotadeildarinnar hafi ekki allri átt að veita í að ráða nýtt starfsfólk heldur hafi einnig átt að verja henni í að skoða ferla lögreglunnar og upplifun þolenda hjá lögreglunni.
„Hugmyndin var sú að nota þetta tækifæri til að reyna að bæta upplýsingagjöf og nýta þessi viðkvæmu mál, sem kynferðisbrotamálin eru, að prófa okkur áfram með það. Og með það að leiðarljósi að ef að fólk verður ánægðara með þjónustu lögreglunnar þar verði hægt að nýta þessa þekkingu á fleiri stöðum,“ segir Þórir.
Hann segir að strax og fjárveitingin kom hafi verið byrjað á forritun. Vinnan hafi verið flókin því mikilvægt sé að gæta að persónuupplýsingum þolenda og annarra sem að málunum koma.
„Það þarf að passa hvaða upplýsingar eru komnar á ytri vef því þetta er í raun stórt stökk fyrir okkur. Þarna er verið að gefa upplýsingar beint úr kerfinu okkar á ytri vef. Þetta kallar á tengingu við okkar kerfi sem er auðvitað mjög viðkvæmt,“ segir Þórir sem segir að bara í síðasta mánuði hafi þau náð að opna fyrir þrettán þolendur að skoða sín mál í þjónustugáttinni.
„Þau hafa verið í vinnu með okkur að skoða þessi mál og var búið að undirbúa fyrr um ári síðan að þau myndu taka þátt. Það var opnað fyrir þau og þau geta þannig núna skoðað sín mál en það er eitt af skrefunum í þessari vinnu,“ segir Þórir.
Ég held að allar þessar upplýsingar séu mikilvægar fyrir þolendur.
Þórir segir að það sem þolendur sjái inn á vefnum sé hver staðan sé á málinu þeirra, hver er réttargæslumaður og hvort þau eigi tíma hjá lögreglu. Þau sjá einnig hver innan kynferðisbrotadeildar er ábyrgur fyrir málinu þeirra.
„En þau sjá líka tölfræði um hver meðalafgreiðslutími svipaðra mála er hjá deildinni og pælingin að baki því er ákveðin væntingarstjórnun. Að fólk sjái hvað er „eðlilegt“ að það taki langan tíma að afgreiða mál og hvort afgreiðsla þeirra máls sé umfram það,“ segir Þórir.
„Ég held að allar þessar upplýsingar séu mikilvægar fyrir þolendur. Þau eru að hringja inn og spyrja hvar málið er statt og það getur verið að ferlarnir séu ekki alveg línulegir. Mál getur verið í rannsókn og farið ákærusvið en farið svo aftur í rannsókn. Þannig erum við að reyna að veita þessar upplýsingar þannig þær séu skiljanlegar fyrir þolendur,“ segir Þórir.
Hann segir að þetta sé líka gert svo fólk skilji betur rannsóknarferilinn og hann telji að í mörgum tilvikum sé fólk sáttara við það hvernig rannsókn gengur ef það skilur betur ferli málanna almennt.
Þá nefnir Þórir einnig þjónustukannanirnar og að þótt fólk sé almennt ánægt með þjónstuna, sé það upplýsingagjöfin sem helst halli á.
„Þetta er mikilvægt verkefni,“ segir hann að lokum.

Teymisvinna tryggir að margir fylgi málinu alla leið
Í dag eru 13,4 stöðugildi hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Þar af er einn aðstoðaryfirlögregluþjónn, þrír lögreglufulltrúar, 8,4 rannsóknarlögreglumenn, en tveir þeirra eru í hlutastarfi, og einn aðalvarðstjóri. Fjöldi stöðugilda hefur verið nærri sá sami síðan árið 2017 þegar þeim var fjölgað úr 9,9 í 12,4.. Síðustu þrjú árin stöðugildi rannsóknarlögreglumanna verið átta til tíu af þréttán stöðugildum deildarinnar.
Í viðtali við Fréttablaðið í október 2019, sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, frá ýmsum umbætum sem voru innleiddar eða í þróun hjá kynferðisbrotadeildinni í kjölfar gagnrýni frá þolendum og aðstandendum þolenda sem þangað leituðu eftir að brotið var á þeim.
Meðal þess sem hún nefndi var sálfræðingur yrði ráðinn til starfa, að þróaður væri sýndarveruleika-dómssalur og að þolendur ættu að geta flett upp stöðu mála sinna á netinu. Þá nefndi hún einnig að bæta ætti menntun rannsakenda.
Í viðtalinu greindi Sigríður Björk frá því að teymi væru gerð ábyrg fyrir málunum til að tryggja að sami aðili fylgi málinu alla leið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er það enn þannig.
„Teymi vinna saman að rannsóknum kynferðisbrota en það verklag hefur gefið góða raun. Teymisvinna tryggir að fleiri fylgja málinu alla leið og að samfella sé við rannsókn þeirra,“ segir í svari embættisins við fyrirspurn blaðsins.
Spurð um menntun rannsakenda segir í svari stofnunarinnar að um helmingur deildarinnar stundi nám við rannsóknir kynferðisbrota sem er kennt í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar auk þess sem einhver fjöldi deildarinnar stundi nám á sama stað í viðtals- og yfirheyrslutækni. Samkvæmt svarinu hefur starfsfólk deildarinnar ekki verið sent á sérstök námskeið áður en þau hefja störf í deildinni.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr á þessu ári að staða sálfræðingsins hefði verið lögð niður því að um tímabundið verkefni hefði verið að ræða. Rúmt ár er síðan staðan var lögð niður.
Ef þú hefur verið beitt/ur eða þekkir til einhvers sem hefur verið beitt/ur ofbeldi er hægt að óska eftir aðstoð með því að hringja í neyðarlínuna 112 eða óska eftir netspjalli á vefsíðu Neyðarlínunnar 112.is. Einnig er hægt að hringja í lögreglu á viðeigandi landsvæði eða senda lögreglu skilaboð á Facebook-síðum lögreglunnar og lögregla hefur samband til baka. Þá er Kvennaatkvarfið með neyðarnúmerið 561-1205 sem er opið allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar um aðstoð til þolenda má finna á vef heilsugæslunnar.