Eitt til þrjú sýni af um 150 þúsund sýnum sem tekin er á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir PCR-próf týnast í hverjum mánuði.

Þetta kemur í svari frá Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslunnar. Ekki er til tölfræði um hversu mörg sýni týnast en Óskar segir að það sé sjaldgæft.

„Talað um 1 til 3 sýni á mánuði en getur auðvitað verið eitthvað meira. Oftast tökum við 5.000 sýni á dag og í 30 daga er þetta 150.000 sýni,“ segir Óskar í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Aðspurður segir hann ástæðuna vera að rangt strikamerki sé prentað út.

„Við förum alltaf yfir þetta með okkar fólki og því svona mistök afar sjaldgæf. Stundum getum við ekki rakið vandann, því miður.“

Fara stöðugt yfir verklagið

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir sömuleiðis að erfitt sé að áætla með mikilli nákvæmni hversu mörg sýni týnast.

„Við vitum stundum af þessu þegar fólk kemur til okkar og biður um að við flettum upp svari eða fólk hefur komið inn á netspjallið og látið okkur vita af þessu. Þetta er að minnsta kosti ekki mikill fjöldi en því miður gerist þetta af og til. Við erum þó alltaf að fara yfir verklagið og bæta úr ef og þegar við fáum upplýsingar um slíkt.“

Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV, var sérstaklega óheppinn en hann greindi frá því nýleg að sýni hans og barna hans hafi ekki fundist og þurfti hann því að mæta aftur í sýnatöku.