Íslenska þjóðin les að meðaltali 2,4 bækur á mánuði. Sá hópur sem aldrei les bók stækkar, á meðan þeir sem hámlesa fjölgar. Þá lesa um 65 prósent landsmanna eingöngu eða oftar á íslensku en á öðru tungumáli.
Þetta kemur fram í nýrri lestrarkönnun sem var birt í dag, á degi íslenskrar tungu. Það var Miðstöð íslenskra bókmennta í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands sem könnuðu viðhorf þjóðarinnar til bóklestrar.
Samkvæmt niðurstöðum les eða hlustar ríflega þriðjungur þjóðarinnar á bók daglega eða oftar. Marktækur munur er á milli kynja, en konur lesa meira er karlmenn. Þá les eldra fólk meira en það yngra, en ekki er marktækur munur á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Ef rýnt er í helstu niðurstöður þá lesa Íslendingar um 2,4 bækur á mánuði, samanborið við 2,3 bækur í lestrarkönnun frá árinu 2021. Þeim fjölgar sem lesa enga bók, en á sama tíma fjölgar einnig þeim sem lesa fimm eða fleiri bækur á mánuði.
Konur lesa og hlusta að jafnaði á fleiri bækur en karlar og fólk með háskólamenntun les fleiri bækur en aðrir menntahópar.
Um 65 prósent landsmanna les einungis eða oftar á íslensku, 18 prósent lesa á íslensku og öðru tungumáli, en um 3 prósent lesa einungis á öðru tungumáli.
Þá vilja landsmenn helst grípa í skáldsögur þegar þeir lesa eða hlusta á bók, en um 52 prósent vilja lesa glæpasögur.