Ís­lenska þjóðin les að meðal­tali 2,4 bækur á mánuði. Sá hópur sem aldrei les bók stækkar, á meðan þeir sem hám­lesa fjölgar. Þá lesa um 65 prósent lands­manna ein­göngu eða oftar á ís­lensku en á öðru tungu­máli.

Þetta kemur fram í nýrri lestrar­könnun sem var birt í dag, á degi ís­lenskrar tungu. Það var Mið­stöð ís­lenskra bók­mennta í sam­starfi við Borgar­bóka­safn Reykja­víkur, Fé­lag ís­lenskra bóka­út­gef­enda, Hag­þenki, Lands­bóka­safn, Reykja­vík Bók­mennta­borg UNESCO og Rit­höfunda­sam­band Ís­lands sem könnuðu við­horf þjóðarinnar til bók­lestrar.

Sam­kvæmt niður­stöðum les eða hlustar ríf­lega þriðjungur þjóðarinnar á bók dag­lega eða oftar. Mark­tækur munur er á milli kynja, en konur lesa meira er karl­menn. Þá les eldra fólk meira en það yngra, en ekki er mark­tækur munur á milli höfuð­borgar­svæðis og lands­byggðar.

Um 34 prósent landsmanna hafa nýtt sér þjónustu bókasafna á síðastliðnum tólf mánuðum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ef rýnt er í helstu niður­stöður þá lesa Ís­lendingar um 2,4 bækur á mánuði, saman­borið við 2,3 bækur í lestrar­könnun frá árinu 2021. Þeim fjölgar sem lesa enga bók, en á sama tíma fjölgar einnig þeim sem lesa fimm eða fleiri bækur á mánuði.

Konur lesa og hlusta að jafnaði á fleiri bækur en karlar og fólk með há­skóla­menntun les fleiri bækur en aðrir mennta­hópar.

Um 65 prósent lands­manna les einungis eða oftar á ís­lensku, 18 prósent lesa á ís­lensku og öðru tungu­máli, en um 3 prósent lesa einungis á öðru tungu­máli.

Þá vilja lands­menn helst grípa í skáld­sögur þegar þeir lesa eða hlusta á bók, en um 52 prósent vilja lesa glæpa­sögur.