Sveitarstjórnir fimm sveitarfélaga á Suðurlandi taka ákvörðun í desember um að fara í formlegar viðræður um sameiningu. Þegar hafa verið haldnir fimm rafrænir kynningarfundir fyrir íbúa Rangárþings eystra og ytra, Mýrdalshrepps, Skaftárhrepps og Ásahrepps.

Ef verður af sameiningu myndast víðfeðmasta sveitarfélag landsins sem þar með slær meti Múlaþings við, en það varð til eftir sameiningu fjögurra sveitarfélaga í haust. Íbúafjöldinn yrði rúmlega fimm þúsund manns.

„Sameining myndi þýða að við hefðum sterkari rödd við borðið í samtalinu við ríkið og hægt væri að auka fagmennsku og sérhæfingu á öllum stigum stjórnsýslunnar,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra og formaður verkefnahópsins.

Hann segir að vegna faraldursins hafi viðræðurnar tafist, stefnt hafi verið að því að taka ákvörðun um formlegar viðræður í haustbyrjun. Núna sé ekki ólíklegt að kosið verði um sameiningu í bindandi íbúakosningu um mitt næsta ár. En fulltrúar munu samt vanda sig og taka sér sinn tíma.

Zenter rannsóknir gerðu nýlega skoðanakönnun á afstöðu íbúanna. Kom þar fram að 69 prósent þeirra eru hlynnt en 16 prósent andvíg. Hlutfallið er nokkuð jafnt í fjórum stærstu sveitarfélögunum. Í Ásahreppi var 41 prósent hlynnt og 43 prósent andvíg.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Anton segir að verði sameining felld í einhverju sveitarfélaganna þýði það ekki að hin myndu samt sameinast. Þá væri það sveitarstjórna að taka umræðuna upp aftur og þá hugsanlega leggja fram nýja tillögu án þeirra sem höfnuðu.

„Vissulega hefur fólk áhyggjur af ýmsum hlutum. En tilgangurinn er að bæta alla þjónustu en ekki skerða hana. Við færum ekki út í þetta nema við teldum alla íbúa hagnast á því,“ segir Anton. Í Múlaþingi var nokkru valdi haldið í byggðarlögunum með stofnun heimastjórna, til dæmis á Seyðisfirði og Djúpavogi. Anton segir að slíkar lausnir hafi einnig verið ræddar í tengslum við sameiningu á Suðurlandi. Það væri þó umræða sem þyrfti að eiga sér stað í formlegum viðræðum.

„Við viljum að flest störf sem verða til í sveitarfélaginu verði störf án staðsetningar. Að fólk geti valið sér búsetu hvar sem er innan þess,“ segir hann.

Öll fimm sveitarfélögin reiða sig mikið á ferðaþjónustu og hafa orðið fyrir hvað mestu tekjufalli á landinu í ár vegna faraldursins. Fyrir utan tafir og rafræna fundi segir Anton að núverandi fjárhagsstaða hafi ekki breytt neinu varðandi sameiningaráformin. „Við erum bjartsýn á að ferðaþjónustan hljóti að jafna sig og komast aftur á fullt skrið þegar mesta faraldrinum sleppir,“ segir hann.